Finnst þér orðið erfiðara en áður að halda í við kílóin?
Og finnst þér kannski eins og þú megir varla orðið horfa á matinn og hann er sestur utan á þig?
Hægir á brennslunni
Staðreyndin er sú að það verður erfiðara að halda þyngdinni í skefjum með hærri aldri, og eftir fertugt virðist þetta skella á hjá flestum.
Þú hefur eflaust heyrt að eftir því sem við eldumst þá hægi á brennslunni – og það eru svo sannarlega engar ýkjur.
Snúðu vörn í sókn
En það góða er þó að hægt er að bregðast við þessu og snúa vörn í sókn. Það þarf bara aðeins að hugsa þetta upp á nýtt og leggja nýjar áherslur því það er ýmislegt sem má gera til að örva brennsluna. Því það gengur ekki lengur að borða eins og þegar þú varst tvítug/ur og vænta þess að þú komist upp með það án þess að fitna.
Hér eru sex atriði sem þú ættir að skoða
1. Borðaðu morgunmat
Þótt flestir sérfræðingar og ráðgjafar mæli með því að borða morgunmat þá er það engu að síður umdeilt og er talið að það henti sumum alveg ágætlega að sleppa honum.
En viljir þú halda brennslunni við og örva hana er skynsamlegt að borða morgunmat fljótlega eftir að þú vaknar og ekki geyma það þar til um miðjan morgun. Það þarf að koma líkamanum og allri starfsemi hans í gang eftir næturhvíldina svo hann vinni vel allan daginn.
Gættu þess síðan að borða reglulega yfir daginn.
2. Prótein í öll mál
Reyndu að fá prótein úr fæðunni í hverri máltíð. Prótein er talið hafa mikil áhrif á efnskipti líkamans.
Þá eru prótein líka mikilvæg til að hjálpa líkamanum að byggja upp og viðhalda vöðvamassa í stað þess að safna fitu.
3. Vatn, vatn og aftur vatn
Að drekka mikið vatn er afar gott fyrir líkamann á svo mörgum sviðum. Það kemur því ekki á óvart að það sé líka gott fyrir efnaskiptin.
Rannsóknir sýna að þeir sem drekka átta til tólf glös af vatni á dag brenna meira en þeir sem aðeins drekka fjögur glös.
4. Gættu þess að borða nóg
Auðvitað er það freistandi að borða minna og sleppa úr máltíðum þegar maður vill grenna sig – en það er víst alls ekki skynsamlegt.
Þegar þú borðar ekki nóg og finnur til svengdar er eðlilegt að hugsa sem svo að nú sé líkaminn að brenna þessum aukakílóum. En svo er þó alls ekki, heldur þveröfugt! Það sem gerist er að bæði hægir það á brennslunni sem og gengur á vöðvamassa líkamans.
5. Lyftu lóðum
Hreyfing skiptir auðvitað miklu máli upp á brennslu líkamans. En það er ekki nóg að gera þolæfingar til að brenna hitaeiningum.
Að vinna með þyngd og lóð hjálpar til við að byggja upp vöðva sem hefur síðan bein áhrif á efnaskiptin og þú brennir meiri fitu. Vöðvar brenna fleiri hitaeiningum en fita. Á meðan hálft kíló af fitu brennir 2 hitaeiningum á dag brennir hálft kíló af vöðvum 6 hitaeiningum.
Best er að gera þessar æfingar á morgnana svo brennslan verði meiri yfir daginn.
6. Slakaðu á og minnkaðu stressið
Streita hefur ekki góð áhrif á efnaskiptin og þegar við eldumst verður stressið og álagið oft flókið. Þetta gerir lítið annað en að hægja á brennslunni.
Reyndu að finna þína slökun, hvort sem það er með nuddi, hugleiðslu, heitu baði eða við lestur.