Hefurðu ekki lent í því að þú ert að þurrka þér og finnur einhverja leiðinda lykt og áttar þig svo á því að það er handklæðið sem þú ert að nota sem lyktar svona illa?
Þetta er líklega eitthvað sem flestir kannast við.
Súr lykt
Þegar við leggjum handklæðin frá okkur rök og blaut safna þau í sig súrri lykt. Og það sem meira er að þá getur þvottaefnið leitt til þess að handklæðin missa mýkt og sterku efnin í þvottaefninu og mýkingarefnum safnast upp í handklæðunum. En það leiðir til þess að þau fara að lykta og verða leiðinleg.
Þetta er algengt og sumir bregða á það ráð að henda handklæðunum þegar þannig er komið. En ef handklæðin eru ekki orðin mjög gömul er algjör óþarfi að henda þeim því það má auðveldlega fríska upp á þau og ná lyktinni úr þeim.
Og hvernig gerum við það?
Jú, við getum notað hvítt edik (t.d. borðedik).
Svo ef þú vilt prófa að fríska upp á handklæðin settu þá edik í hólfið þar sem mýkingarefnið á að fara – og fylltu hólfið alveg með edikinu.
Edikið ætti síðan að skolast og hreinsast í burtu í lok þvottar en ef þér finnst vera einhver ediklykt þá er bara að þvo annan hring, án ediks auðvitað, og þá ætti öll lykt að vera farin.
Þetta má síðan gera svona annað slagið – en samt algjör óþarfi að nota edik í hvert einasta skipti.