Það er alltaf jafn gaman að bjóða upp á kalkún við áramót – og þótt það taki sinn tíma að undirbúa hann þá er þetta afar þægilegt þegar margir eru í mat.
Með eða án fyllingar
Ég er búin að elda kalkún á gamlárskvöld næstum því samfellt í þrjátíu ár og finnst það alltaf jafn skemmtilegt. Á öllum þessum tíma hef ég prófað mig áfram með fyllingar og krydd á fuglinn. Oftast hef ég haft hann fylltan en mér finnst hann engu að síður alveg jafn góður án fyllingar.
Frábær ný aðferð
Þar sem ég var í Bandaríkjunum á Þakkargjörðarhátíðinni í nóvember síðast liðinn fannst mér tilvalið að elda kalkún og prófa þá eitthvað nýtt þar sem ég myndi aftur elda kalkún nú um áramót.
Ég ákvað því að sleppa fyllingunni í þetta sinn og leitaði til Mörthu Stewart með hugmyndir. Úr varð þessi safaríki, mjúki og bragðgóði fugl.
Ég mæli eindregið með því að þið prófið að elda fuglinn á þennan hátt, hvort sem þið fyllið hann eður ei. Ég mun klárlega nota þessa aðferð aftur núna um áramótin.
Það sem þarf
kalkúnn
2 gulrætur, gróflega niðurskornar
2 sellerístilkar, gróflega niðurskorið
1 stór laukur, gróflega niðurskorinn
¼ bolli ósaltað smjör, við stofuhita
2/3 bolli eplaedik
½ bollli dökkur púðursykur
2 tsk appelsínusafi
sjávarsalt og nýmulinn pipar
bökunarsprey
Aðferð
Takið kalkúninn úr ísskápnum og látið hann standa við stofuhita í svona 30 mínútur.
Hitið ofninn að 220 gráðum.
Takið ofnskúffu og setjið háls, innyflin úr kalkúninum, gulrætur, sellerí og lauk í skúffuna.
Spreyið grindina, sem kalkúnninn er settur á, með bökunarspreyi.
Ef fylla á kalkúninn setjið þá fyllinguna í hann.
Þerrið fuglinn vel að utan og nuddið hann með tveimur matskeiðum af mjúku smjörinu. Ef skinnið er ekki þurrt er mjög erfitt að nudda smjörinu á hann.
Kryddið síðan með salti og pipar, bæði að utan og innan (ef hann er ekki fylltur).
Bindið leggina saman, hvort sem hann er fylltur eða ekki.
Setjið fuglinn á grindina og inn í ofn – í um 30 mínútur.
Ágætt er að nota kjöthitamæli og stinga honum í þykkasta hluta læris. Annars er gott að miða við að elda kalkún 40 til 45 mínútur fyrir hvert kíló.
Lækkið þá hitann í 180 gráður og bætið tveimur bollum af vatni í ofnskúffuna. Og eldið í um klukkutíma.
Á meðan fuglinn er í ofninum blandið þá eplaediki, púðursykri og appelsínusafa saman í litlum potti. Hafið stillt á háan hita, hitið að suðu og hrærið vel í. Lækkið þá hitann og leyfið þessu aðeins að malla þar til blandan er orðin sírópskennd, tekur svona 10 mínútur. Takið þá af hitanum og bætið tveimur matskeiðum af smjörinu saman við.
Þegar klukkutíminn er liðinn takið þá fuglinn aðeins út og notið pensil til að smyrja hann með púðursykursblöndunni. Setjið hann síðan aftur inn.
Berið síðan blönduna á fuglinn á kortersfresti eða svona þrisvar til fjórum sinnum. Það sem ég gerði líka var að hella vatni og/eða bjór yfir fuglinn svona þrisvar sinnum, en ekki á sama tíma og ég bar á hann.
Ef fuglinn er að verða of dökkur leggið þá álpappír ofan á hann til varnar því að húðin brenni.
Fuglinn er tilbúinn þegar mælirinn sýnir 74 gráður. Eða glær vökvi lekur út þegar stungið er í þykkasta hluta fuglsins.
Nota má soðið í ofnskúffunni í sósuna með fuglinum.
Að eldunartíma liðnum færið fuglinn á fallegt fat og njótið!
jona@kokteill.is
Þú færð allt hráefni í þessa uppskrift í