Því hefur lengi verið haldið fram að morgunmaturinn sé mikilvægasta máltíð dagsins og þeim sem vilja grennast bent á að borða góðan morgunmat.
Morgunverðurinn hefur verið talinn nauðsynlegur til að koma brennslunni í gang og til að ná sér í orku fyrir daginn.
En nú segja sérfræðingar að engin vísindi né sannanir liggi á bak við þessa fullyrðingu.
Ekki mikilvægasta máltíðin
Og sú hugmynd að sé morgunmatnum sleppt þá séu yfirgnæfandi líkur á því að borðað verði of mikið yfir daginn er víst ekki heldur rétt.
Nýlegar rannsóknir sýna að morgunmaturinn er ekki mikilvægasta máltíð dagsins. En það er ekki heldur hádegisverðurinn eða kvöldmaturinn. Málið er að engin máltíð er mikilvægari en önnur og engin þessara þriggja máltíða hjálpa þér við að grennast.
Sérfræðingar við Háskólann í Bath í Bretlandi hafa rannsakað þessar fullyrðingar um morgunmatinn en það kom þeim virkilega á óvart að engar fullnægjandi sannanir liggja fyrir um mikilvægi hans. Það er sem sagt ekkert sem styður þessa fullyrðingu. Telja þeir að þessa ofuráherslu á morgunmatinn megi líklega rekja til markaðssetningar miðaðar að því að selja okkur morgunkorn, egg og beikon svo eitthvað sé upp talið.
Leiðir ekki til þyngdaraukningar
Til að varpa frekari ljósi á málið skiptu sérfræðingarnir við Bath þáttakendum í rannsókn sinni í tvo hópa. Annar hópurinn var látinn borða morgunmat sem innihélt að minnsta kosti 700 hitaeiningar, á meðan hinn hópurinn drakk aðeins vatn fram að hádegi. Í ljós kom að þeir sem slepptu morgunmatnum borðuðu vissulega meira í hádeginu en engan veginn samt það mikið að það jafnaði út 700 hitaeininga mismuninn.
Þá sýndi rannsóknin einnig fram á að það að sleppa morgunmat hefur engin áhrif á fituprósentu líkamans né leiðir það frekar til þyngdaraukningar en það að borða morgunmat.
Þetta eru góðar fréttir fyrir þá sem geta ekki hugsað sér að borða strax á morgnana en hafa fengið að heyra það í mörg ár að ekki sé skynsamlegt að sleppa morgunmatnum.
Þannig að niðurstaðan er sú að þetta er ekki alveg svona svart og hvítt, annað slæmt og hitt gott. Það getur vel verið að það henti sumum að borða morgunmat og öðrum ekki. Svo ef þú ert ein/n af þeim sem ekki borðar morgunmat þá þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur af því og þú þarft ekki heldur að láta aðra segja þér annað.
Sagt var frá rannsókninni hjá sciencealert.com