Það eru til súkkulaðikökur og svo eru til súkkulaðikökur með stóru essi – og þessi hér er sko ein af þeim.
Þetta er engin smá kaka! Hér er uppskrift að einni mýkstu súkkulaðiköku sem hægt er að hugsa sér, og með mjúku smjörkremi á milli þriggja botna.
Hún Svava vinkona okkar á Ljúfmeti og lekkerheit töfraði þessa dásemd fram.
Hershey´s súkkulaðikaka
Það sem þarf
- 2 bollar sykur
- 1 3/4 bolli hveiti
- 3/4 bolli kakó
- 1 ½ tsk. lyftiduft
- 1 ½ tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 2 egg
- 1 bolli mjólk
- ½ bolli olía (ekki ólífuolía)
- 2 tsk vanilludropar
- 1 bolli sjóðandi vatn
Aðferð
Hitið ofninn í 175°.
Blandið sykri, hveiti, kakói, lyftidufti, matarsóda og salti saman.
Bætið eggjum, mjólk, olíu og vanillu saman við og hrærið vel.
Hrærið sjóðandi vatni varlega saman við.
Setjið deigið í 2 (eða 3) smurð bökunarform með lausum botni (Svava notaði þrjú minni form) og bakið í 25-30 mínútur.
Látið botnana kólna í 15 mínútur í formunum, takið þá síðan úr og látið kólna alveg áður en kremið er sett á.
Smjörkrem
- 12 msk mjúkt smjör
- 5 ½ bolli flórsykur
- 1 bolli kakó
- 2/3 bolli mjólk
- 2 tsk vanilludropar
Aðferð
Setjið smjör í skál.
Setjið um 1/3 af flórsykrinum saman við og hrærið vel.
Setjið þá um 1/3 af mjólkinni og vanilludropana saman við og blandið vel.
Þar á eftir er um 1/3 af kakóinu sett út í og blandað vel.
Endurtakið þar til allt er komið í skálina.
Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir kökuna.