Það er allt gott við þessar kjötbollur í múffuformi og eru þær alveg himneskar á bragðið. Og síðan eru þær súpereinfaldar í gerð – og það er eitthvað sem við erum einstaklega hrifin af.
Með bollunum góðu er borin fram dásamlega sósa.
Þessar verður þú að prófa því þær slá klárlega í gegn hjá fjölskyldunni.
Hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit deildi þessari uppskrift með okkur.
Kjötbollur í múffuformi (uppskriftin gefur um 10 bollur)
- um 500 g nautahakk (1 bakki)
- ½ dl haframjöl
- ½ dl parmesan ostur (vel þjappað)
- 1 egg
- ½ dl tómatsósa
- ½ tsk hvítlaukskrydd
- salt og pipar
- 1 tsk Worcestershire sósa
- 1 ½ – 2 dl af því grænmeti sem til er (t.d. paprika, rauðlaukur og sveppir, eða brokkólí og rifnar gulrætur…. allt gengur!)
Hitið ofninn í 180°.
Blandið öllum hráefnunum saman í skál.
Hrærið varlega saman í hrærivél eða notið bara hendurnar eða sleif.
Þjappið blöndunni síðan í múffuform (gott að spreyja þau áður með PAM).
Setjið smá tómatsósu yfir og bakið í 30-35 mínútur.
Dásamlega góð sósa með bollunum
- 1 dós sýrður rjómi (1,5 dl)
- 1 peli rjómi (2,5 dl)
- 1 kjúklingateningur
- 1 msk sojasósa
- 1 msk rifsberjahlaup
- salt og hvítur pipar
- maizena til að þykkja
Blandið öllu í pott og látið sjóða í 5 mínútur.
Smakkið til með salti og hvítum pipar og þykkið með maizena.
Njótið!