Heitir matarmiklir réttir eru eitthvað svo notalegir á dimmum vetrarkvöldum – og einmitt þess vegna er gúllas alveg tilvalið.
Þessi uppskrift er aðeins frábrugðin hefðbundnum gúllasuppskriftum því hún inniheldur rautt karrý, mango chutney og kókosmjólk en þetta fer alveg einstaklega vel með tómötunum og engiferinu.
Uppskriftin er frekar stór og dugir jafnvel í tvær máltíðir, en það fer auðvitað eftir því hversu margir eru í mat.
Hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit deilir þessari uppskrift með okkur.
Það sem þarf
- 2 tsk olía
- um 1 kg. gúllasbitar
- 1 tsk salt
- 1/2 tsk pipar
- 1 stór laukur, skorinn í teninga
- 3-4 hvítlauksrif, pressuð
- 3 tsk rautt karrýmauk (thai red curry paste)
- 2 lárviðarlauf
- 1 dós (400 ml) hakkaðir tómatar
- 1 dós (400 ml) kókosmjólk
- 3 msk mango chutney
- 3 msk sítrónusafi
- 1 grænmetisteningur
- 2 tsk fínrifið engifer
- 3-4 dl gulrætur, skornar gróflega niður
- 1 rauð paprika, skorin í teninga
Aðferð
Hitið olíu í góðum þykkbotna potti og brúnið kjötið í tveimur skömmtum.
Takið kjötið úr pottinum og leggið til hliðar. Kryddið með salti og pipar.
Bætið smá olíu í pottinn ef þörf er á og setjið lauk og hvítlauk í hann. Látið mýkjast í um 3-5 mínútur (passið að hafa hitann ekki of háann) og bætið síðan kjötinu aftur í pottinn.
Hrærið karrýmauki saman við og steikið í eina mínútu.
Bætið þá tómötum, kókosmjólk, mangó chutney, sítrónusafa, engifer og lárviðarlaufi í pottinn og látið suðuna koma upp.
Lækkið hitann, setjið lok á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 75 mínútur.
Bætið þá gulrótunum og grænmetisteningi í pottinn og sjóðið áfram í 30-45 mínútur, eða þar til kjötið er orðið meyrt og gulræturnar mjúkar.
Bætið þá paprikunni saman við og sjóðið án loks í 5 mínútur.
Takið lárviðarlaufin úr pottinum áður en rétturinn er borinn fram.
Gott er að bera gúllasið fram með hrísgrjónum eða kartöflumús og góðu brauði.
Njótið!