Mér hafa alltaf þótt kartöflur alveg einstaklega góðar og í mínum huga eru þær hið fullkomna meðlæti.
Hvort sem það eru venjulegar kartöflur, sætar, franskar, bakaðar, steiktar og þar fram eftir götunum – þetta er allt jafn gott.
Einmitt þess vegna er ég afar veik fyrir öllum kartöfluuppskriftum og þreytist seint á að prófa eitthvað nýtt í þeim efnum.
Ný útgáfa af Hasselback
Flestir þekkja Hasselback kartöflur og eflaust gert þannig nokkrum sinnum.
En hér er komin ný útgáfa af þeim, Hasselback kartöflugratín, sem er alveg frábært með helgarmatnum og í matarboðið.
Hljómar vel, ekki satt!
Það sem þarf
Um 2 kg meðalstórar kartöflur, skornar í þunnar sneiðar
85 gr niðurrifinn Gruyère eða Comté ostur
60 gr niðurrifinn Parmesan ostur
2 bollar rjómi
2 hvítlauksgeirar, kramdir
1 msk ferskt blóðberg, gróflega saxað
2 msk ósaltað smjör
sjávarsalt og svartur pipar
Aðferð
Hitið ofn að 200 gráðum.
Takið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar. Ekki skiptir máli hvort þær eru skrældar áður eða hýðið látið vera á – algjörlega eftir smekk hvers og eins.
Blandið ostunum saman í stórri skál og takið síðan 1/3 af ostablöndunni og setjið í aðra skál og geymið.
Bætið rjóma, hvítlauk og blóðbergi saman við ostinn (þ.e. stærri skammtinn). Kryddið síðan vel með salti og pipar.
Setjið kartöflusneiðarnar út í og notið hendurnar til að velta þeim upp úr osta- og rjómablöndunni. Gætið þess að allar sneiðarnar séu þaktar og látið sneiðarnar ekki festast saman.
Takið eldfast mót og smyrjið með smjöri.
Raðið kartöflunum upp í mótinu – reynið að láta þær standa og alls ekki liggja. Fyllið fatið af kartöflusneiðunum og raðið í hring og síðan í miðjuna. Hafið þær þétt saman.
Hellið síðan osta- og rjómablöndunni jafnt yfir kartöflurnar. Það er smekksatriði hvort öll blandan er sett eða ekki en gott er að láta hana alla vega ná upp í hálft mótið.
Setjið álpappír yfir mótið, setjið það inn í ofn og bakið í 30 mínútur.
Takið þá mótið út og fjarlægið álpappírinn og síðan aftur inn í ofn og bakið í 30 mínútur.
Þá er mótið tekið út og ostinum (sem var lagður til hliðar) dreift yfir og bakað í um halftíma í viðbót eða þar til kartöflurnar eru gullinbrúnar og stökkar að ofan.
Takið þá út og leyfið að standa í nokkrar mínútur áður en borið er fram.
Njótið!
Auðvitað má svo helminga uppskriftina niður vilji maður gera minni skammt.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com
Uppskrift fengin hjá The Food Lab