Fiskur er eitt það besta sem ég fæ og þá er lax í miklu uppáhaldi.
Þar sem lax er oft á borðum hjá mér er ég stöðugt á höttunum eftir nýjum uppskriftum og aðferðum til að auka fjölbreytnina við matseldina.
Fljótlegt og gott
Þessi uppskrift hér er alveg afskaplega góð og ég er ansi hreint ánægð með hana. Enda búin að gera hana nokkrum sinnum.
Kryddið passar vel við laxinn og gefur honum bæði sætt og sterkt bragð. Þá er þetta líka afar einföld uppskrift og það besta er hversu fljótlegt þetta er – sem er auðvitað mikill kostur í miðri viku.
Það sem þarf
500 – 700 gr lax
2 msk púðursykur
1 msk hunang
1 ½ msk ólífuolía
1 msk chilikrydd
1 tsk broddkúmen (cumin)
örlítið sjávarsalt og svartur pipar
Aðferð
Blandið hunangi og ólífuolíu saman í lítilli skál.
Berið blönduna á laxinn með pensli (ekki roðmegin).
Setjið púðursykur, chili, broddkúmen, salt og pipar í aðra skál og hrærið saman.
Notið hendurnar til að dreifa úr kryddinu yfir fiskinn og nudda því á hann (ekki roðmegin).
Setjið ólífuolíu á pönnu og hitið.
Steikið laxinn roðmegin í svona 7 mínútur og snúið þá við og steikið í 2 mínútur. En steikingartíminn fer auðvitað eftir þykkt fisksins og því gæti tíminn verið styttri eða lengri.
Það má líka steikja fiskinn í 1-2 mínútur sitt hvorum megin og setja síðan í ofninn í 7-10 mínútur.
Njótið!
jona@kokteill.is