Hér er kominn hinn fullkomni fjölskylduréttur og klárt mál að þetta er réttur sem allir elska.
Þetta er nýtt tvist á hakk og spagettí en uppskriftin er amerísk og það er hún Svava vinkona okkar á Ljúfmeti og lekkertheit sem töfraði þetta auðveldlega fram.
Það sem þarf
- 450 gr nautahakk (eða 1 bakki)
- 1 dós pastasósa
- 225 gr rjómaostur
- 1/4 bolli sýrður rjómi
- 225 gr kotasæla
- 110 gr smjör
- 225 gr spagettí
- rifinn cheddar ostur
Aðferð
Hitið ofninn í 180°.
Sjóðið spagetttí eftir leiðbeiningum á pakkningu.
Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma og kotasælu þar til það hefur blandast mjög vel.
Steikið nautahakkið á pönnu og kryddið eftir smekk. Hellið vökvanum frá og brúnið hakkið vel.
Hellið pastasósu yfir og látið sjóða við vægan hita í smá stund.
Leggið smjörklípur í botninn á eldföstu móti (ef smjörið er kalt er gott að nota ostaskera í verkið).
Setjið helminginn af spaghettíinu í botninn á eldfasta mótinu.
Hellið rjómaostablöndunni yfir spagettíið og dreifið vel úr henni.
Setjið afganginn af spagettíinu yfir rjómaostablönduna, leggið nokkrar smjörklípur yfir og endið á að hella hakksósunni yfir spagettíið.
Dreifið vel úr hakksósunni og bakið í 30 mínútur.
Eftir 30 mínútur er rétturinn tekinn úr ofninum og rifnum cheddar osti dreift yfir.
Setjið síðan aftur í ofninn í 15 mínútur.
Takið út og njótið!