Hér er einföld og fljótleg uppskrift að dásamlegri böku sem gott er að gæða sér á með rjóma eða vanilluís – sérstaklega nú þegar fer að hausta og margir eiga jafnvel bláber frá berjatínslunni.
Það sem þarf
4 bolla fersk bláber (má líka nota frosin)
½ bolla sykur
2 msk sítrónusafa
2 msk kornsterkju/maísenamjöl
6 msk smjör, ósaltað
½ bolla púðursykur
½ bolla hafraflögur
½ bolla hveiti
¼ tsk salt
og þeyttan rjóma eða ís
Aðferð
Hitið ofn að 180 gráðum.
Smyrjið eða spreyið bökumót.
Blandið bláberjum, sykri, sítrónusafa og kornsterkju saman í stórri skál. Hrærið létt í þessu þar til allt hefur blandast saman. Leggið til hliðar.
Setjið þá púðursykur, hafra, hveiti og salt í aðra skál og skerið smjörið í litla bita og setjið út í. Notið gaffal til að blanda þessum saman. Leggið til hliðar.
Hristið aðeins upp í berjablöndunni og setjið hana svo í bökumótið.
Dreifið hafrablöndunni síðan jafnt yfir.
Setjið mótið inn í ofn en leggið bökunarpappír yfir grindina/plötuna, þ.e. undir mótið – ef það skyldi fljóta upp úr því.
Bakið í 45 til 50 mínútur.
Takið þá bökuna út úr ofninum og leyfið henni að kólna í alla vega 15 mínútur áður en hún er borin fram,
Njótið síðan með þeyttum rjóma eða vanilluís.
Uppskrift averiecooks