Pokar, baugar og þroti undir augum er eitthvað sem margir kannast við.
Hvort sem þetta er út af stressi, lítils svefns eða jafnvel ættgengt þá er þetta oftast til leiðinda og ekki til þess að bæta útlitið.
Heimatilbúnar aðferðir
Þótt til séu góðir hyljarar þá virka þeir t.d. betur á dökka bauga en þrota. Svo má líka fá ágætis krem sem hjálpa til við þrotann og hafa reynst vel.
En það má líka nota ýmsar heimatilbúnar aðferðir sem margir segja svínvirka. Þetta eru afar einfaldar lausnir og þú finnur flestar þeirra í eldhúsinu þínu – og kosta því ekki annan handlegginn.
Fimm ráð til að losna við poka, þrota og bauga
1. Kartöflur
Taktu kalda hráa kartöflu og skerðu hana í þunnar sneiðar.
Leggðu sneiðarnar á augnsvæðið í svona 10 mínútur.
Kartöflur haldast kaldar í langan tíma og með því að leggja þær á augnsvæðið fær ysta lag húðarinnar m.a. andoxunarefni og önnur efni sem næra húðina. Og kuldinn af kartöflunni hjálpar til við að draga úr þrotanum.
2. Kaldar skeiðar
Þeir sem sífellt eru með poka og þrota undir augum ættu alltaf að geyma skeiðar inni í frysti. Skeiðarnar passa nákvæmlega undir augun.
Settu skeiðar inn í frysti og taktu þær síðan ískaldar út til að leggja á augnsvæðið og þrýstu þeim örlítið á víð og dreif um svæðið. Þetta dregur hratt úr þrotanum.
En þetta er auðvitað aðeins tímabundin lausn og frábær leið ef þig vantar að minnka þrota hratt og örugglega.
3. Agúrkur
Þetta gamla trix virkar alltaf jafn vel.
Settu kaldar gúrkusneiðar á augnsvæðið og láttu þær hjálpa til við að draga úr þrotanum. Þá eru gúrkurnar líka góðar upp á næringu húðarinnar þar sem þær innihalda svo mikið vatn.
4. Tepokar
Settu 2 poka af grænu eða svörtu te í heitt vatn. Láttu pokana svo inn í ísskáp og leyfðu þeim að kólna alveg. Pokarnir eru síðan lagðir á augnsvæðið og látnir liggja þar í 5 til 10 mínútur.
Þetta er afar góð leið til að draga úr þrota því koffínið fær æðarnar til að dragast vel saman.
5. Krem við gyllinæð
Þetta hljómar kannski ekkert heillandi – en þetta virkar víst. Þetta er þó einungis til að nota annað slagið því kremið getur valdið skaða á viðkvæmri húðinni undir augunum sé það notað oft.
Notið aðeins lítið krem í einu og sjaldan.