Sérfræðingar telja sig hafa fundið leyndarmálið á bak við hamingjusamt hjónaband.
Og það felst ekki í rómantískum ferðalögum, blómvöndum eða dýrum gjöfum. Nei aldeilis ekki, því þetta leyndarmál kostar ekki krónu og ekki heldur neina vinnu.
Lykilinn að góðu hjónabandi
Sálfræðingar og vísindamenn við Florida State University í Bandaríkjunum telja sig hafa fundið það út að sjö til átta tíma svefn á nóttu sé einn lykilinn að góðu hjónabandi. Með því að fá þennan svefn á hverri nóttu eru einstaklingar ólíklegri til að einblína á neikvæða þætti sambandsins og horfa frekar á heildarmyndina.
Þá segja vísindamennirnir að svefninn hafi líka áhrif á þann hluta heilans sem hafi með sjálfsstjórn að gera – en það er talið bæta skilning okkar og sýn á sambandið.
Konur láta svefnleysið bitna á makanum
Konur eru víst viðkvæmari fyrir svefnleysi og sofi þær illa láta þær það gjarnan bitna á makanum og sjá frekar neikvæðar hliðar hans þegar þær eru ósofnar. Samkvæmt rannsóknum láta karlmenn hins vegar svefnleysið ekki bitna jafn mikið á makanum.
Það ætti því að vera báðum aðilum í hag að konan fái góðan nætursvefn.