Ef þú ert með fíngert, flatt eða líflaust hár ættirðu að prófa að þvo hárið á annan hátt en þú ert vön/vanur – og þá sérstaklega ef þú notar hárnæringu í hárið.
Prófaðu þessa aðferð
Hefur það einhvern tímann hvarflað að þér hvað myndi gerast ef þú settir hárnæringuna í hárið á undan sjampóinu?
Hvort heldur sem það hefur hvarflað að þér eða ekki þá er þetta frábær leið til að gefa hárinu næringu án þess að það verði slepjulegt eða flatt. Því hárnæring getur einmitt gert hárið þyngra og líflausara. Og hreint hár er bæði létt og lifandi.
Ef þú þværð hárið eftir að þú hefur sett næringuna í það hreinsarðu í burtu allar leifar af efnum og fitu, sem kemur í veg fyrir að hárið verði þungt. Með þessu er einnig hægt að setja næringuna betur í hárið og jafnvel nudda í rótina sé hársvörðurinn þurr.
Og hér er annar kostur
Annar kostur sem þessi aðferð hefur í för með sér er að hún lengir tímann á milli þess hversu oft þú þarft að þvo hárið – og ef þú blæst hárið vel þá endist blásturinn lengur.
Við hér á Kokteil getum vottað það að þessi aðferð svínvirkar en það þarf bara að gæta þess að setja vel af næringunni í hárið – og nudda henni í eins og verið sé að þvo hárið. Skola síðan og þvo hárið með sjampói.
Aðferðin er reyndar afar góð fyrir allar hártegundir þótt hún henti þeim sem eru með fínt hár einstaklega vel.
Við hvetjum þig til að prófa!