Það er ákveðin nostalgía sem vaknar upp við þessa köku. Enda hvar man ekki eftir klassískri Sjónvarpsköku með kókosmjöli ofan á.
Sjónvarpskaka var afar vinsæl hér áður fyrr og fékkst í öllum verslunum og bakaríum.
En hér er nýtt tvist á þessa ljúffengu köku, því þessi er með Twix súkkulaði. Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir þessari uppskrift með okkur – en uppskriftina fékk Svava úr Spis Bedre.
Sjónvarpskaka með twix súkkulaði
- 50 g smjör
- 4 egg
- 300 g sykur
- 300 g hveiti
- 3 tsk lyftiduft
- korn úr 1 vanillustöng (má líka nota 2 tsk vanillusykur)
- 2 dl nýmjólk
Það sem fer ofan á kökuna
- 90 g Twix (ca 4 stykki)
- 75 g smjör
- 75 g púðursykur
- 75 g kókosmjöl
- ½ dl nýmjólk
Aðferð
Hitið ofninn í 200°.
Bræðið smjörið og látið það kólna örlítið.
Hrærið egg og sykur ljóst og létt, og hrærið smjörinu síðan saman við.
Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið í deigið. Hrærið að lokum mjólkinni saman við.
Setjið deigið í smurt formkökuform (1 lítra form) og bakið í 25 mínútur.
Hakkið Twix súkkulaðið gróft og látið í pott ásamt smjörinu, púðursykrinum, kókosmjölinu og nýmjólkinni. Látið allt bráðna saman við vægan hita.
Athugið með kökuna eftir 25 mínútur (þið gætuð þurft að bæta nokkrum mínútum við), takið hana út og hækkið hitan á ofninum upp í 225°.
Setjið Twix-blönduna yfir kökuna og bakið hana síðan áfram í 5 mínútur. Látið kökuna kólna aðeins í forminu áður en hún er tekin úr því.
Verði ykkur að góðu!