Þótt þessi girnilega terta sé í mörgum lögum er alls ekki flókið að gera hana. Og þetta er ekki rjómi sem er á milli kökubotnanna heldur þetta líka ótrúlega góða krem. Þvílík dásemd!
Hún Lilja Katrín á blaka.is á heiðurinn af þessu góðgæti og deilir hér með okkur uppskriftinni – og hún segir að allir geti töfrað þessa dásemd fram því uppskriftin sé einföld.
Það sem þarf
Kökubotnar
- 2 ½ bolli hveiti
- 1 ½ tsk lyftiduft
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk salt
- 115 g mjúkt smjör
- 1 bolli sykur
- ½ bolli púðursykur
- ¼ bolli olía
- 2 msk hunang
- 3 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 1 bolli mjólk
Krem
- 230 g mjúkt smjör
- 4 bollar flórsykur
- 2 msk mjólk
- 280 g sykurpúðar
Súkkulaðibráð
- 2 bollar mjólkursúkkulaði
- ½ bolli rjómi
- smá hafrakexmulningur
Aðferð
Kökubotnar
- Hitið ofninn í 180°C og smyrjið þrjú 20 sentímetra form. Það má líka setja deigið í eina skúffu og skera svo út botna með diski.
- Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti saman í skál og setjið til hliðar.
- Blandið smjöri, sykri og púðursykri vel saman í annarri skál. Bætið olíu og hunangi út í og hrærið vel.
- Bætið eggjum og og vanilludropum saman við og hrærið vel.
- Skiptist síðan á að blanda hveitiblöndunni og mjólkinni saman við smjörblönduna.
- Deilið deiginu í formin og bakið í 20-25 mínútur. Leyfið botnunum að kólna alveg.
Krem
- Þeytið smjörið í 1-2 mínútur og bætið síðan flórsykri út í. Hrærið því næst mjólkinni saman við.
- Setjið sykurpúðana á smjörpappírsklædda ofnskúffu og hitið í ofni, helst á “broiler” stillingu, í 30-45 sekúndur eða þar til þeir eru farnir að brúnast.
- Skrapið sykurpúðunum ofan í smjörblönduna og hrærið vel saman.
- Setjið kremið ofan á fyrsta botninn, síðan annan botn ofan á og koll af kolli þar til kremið er búið.
Súkkulaðibráð
- Hitið rjómann í örbylgjuofni í um 30-50 sekúndur og hellið honum yfir súkkulaðið.
- Leyfið þessu að standa í 1 mínútu og hrærið síðan vel þar til allt er bráðnað saman.
- Hellið bráðinni yfir kökuna og skreytið að lokum með hafrakexmulningi og jafnvel nokkrum sykurpúðum.