Þegar sérfræðingar gefa fólki ráð til að léttast er oftast mælt með því að halda áfengisneyslu í algjöru lágmarki eða sleppa henni alveg. Því til sönnunar er bent á hversu margar hitaeiningar felist í víni.
Eru þeir sem drekka vín þyngri?
En er það virkilega þannig að víndrykkja stuðli að meiri þyngd? Og eru þeir sem drekka vín yfirleitt þyngri en hinir sem ekki drekka eða drekka afar sjaldan og lítið?
Samkvæmt fjöldamörgum rannsóknum er það víst alls ekki svo því þeir sem drekka vín eru síður en svo þyngri en hinir. Staðreyndin er víst sú að það eru engar rannsóknir sem styðja við það að víndrykkja bæti á þig kílóum. Það hljómar kannski öfugsnúið því allir vita að áfengi inniheldur fullt af hitaeiningum en hin sturlaða staðreynd er engu að síður sú að það gerir þig ekki feita/n.
Í rannsókn sem framkvæmd var við Harvard háskólann fyrir um 20 árum síðan á 20.000 miðaldra konum var fylgst með víndrykkju þeirra og þyngd í heil 13 ár. Við lok rannsóknarinnar höfðu um 9.000 kvennanna bætt töluverðri þyngd á sig og sumar ansi hreint mikið. Flestir hefðu haldið að það væru konurnar sem drukku vín sem mest hefðu þyngst en raunin var allt önnur. Þær sem voru þyngstar og feitastar voru þær sem ekki smökkuðu vín á meðan þær grennstu voru þær sem mest drukku.
Fjölmargar rannsóknir
Í heimi vísindanna dugir ekki ein slík rannsókn til að vísindamenn og aðrir taki mark á svo ótrúlegri niðurstöðu. Þess vegna hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir á því sama undanfarin 25 ár – og niðurstöðurnar hafa allar verið nokkurn veginn á sama veg.
Ein rannsókn var t.d. framkvæmd í Danmörku, á 43.500 einstaklingum á sex ára tímabili, þar sem niðurstöður sýndu að þeir sem drukku daglega höfðu minna magaummál en þeir sem ekki drukku eða drukku afar sjaldan.
Önnur rannsókn sem gerð var við University College Medical School í London á átta ára tímabili á 49.300 konum leiddi í ljós að konur sem drukku um tvö meðalstór glös af víni á dag voru 24% ólíklegri til að þyngjast en þær konur sem ekki drukku.
Það er til fjöldinn allur af svipuðum rannsóknum á víndrykkju og þyngd og allar sýna þær það sama.
Ástæðurnar fyrir því hvers vegna vín hefur þessi áhrif eru hins vegar ekki ljósar en nokkrar kenningar eru þó uppi.
Það virðist víst vera þannig að hitaeiningar séu ekki það sama og hitaeiningar.