Hjónabandssæla er algjör klassík og uppáhald margra enda bökuð á mörgum heimilum.
En það má vel poppa klassíkina upp – og með þessari ofureinföldu uppskrift hér er það gert svo úr verður algjör unaður.
Stökkur botn og dúnmjúk sultufylling með örlitlum Amaretto líkkjör lyftir kökunni á hærra plan.
Uppskriftinni að þessari dýrindis sælu deildi hún Lilja Katrín á blaka.is með okkur.
Það sem þarf
Botn
1 ½ bolli hveiti
6 msk heilhveiti
¼ tsk matarsódi
¼ tsk salt
½ tsk kanill
múskat á hnífsoddi
10 msk brætt smjör
6 msk sykur
¼ bolli púðursykur
¼ tsk möndludropar
Fylling
1 bolli hindber
2 msk Disaronno Amaretto
6 msk hindberjasulta
Aðferð
Botn
Hitið ofninn í 180°C og takið til hringlaga form, sirka 20 sentímetra stórt. Smyrjið það vel.
Blandið þurrefnum vel saman í skál.
Blandið síðan smjöri, sykri, púðursykri og möndludropum saman í annarri skál.
Blandið smjörblöndunni saman við þurrefnin – hér er gott að hnoða á lokametrunum.
Takið helminginn af deiginu og þrýstið í botninn og upp með hliðunum á forminu.
Bakið í 12-14 mínútur.
Leyfið botninum að kólna í 15-20 mínútur en ekki slökkva á ofninum.
Fylling
Setjið hindberin í skál og látið þau liggja í Disaronno Amaretto í 20 mínútur.
Smyrjið sultunni yfir botninn og stráið síðan hindberjunum yfir en passið að vökvinn af þeim fylgi ekki með.
Myljið hinn helminginn af deiginu yfir berin og bakið í 30-32 mínútur.
Og svo er bara að njóta!