Ef þú ert veik/ur fyrir venjulegum laukhringjum áttu eftir að falla í stafi yfir þessum.
Djúpsteiktir guacamole laukhringir eru svakalega góðir. Þessa þarftu að prófa.
Það sem þarf
3 avókadó
1 límóna
1 tómatur, skorinn í litla bita
¼ bolli steinselja, skorin smátt
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
1 tsk salt
½ tsk chilliduft
hveiti
2 laukar
2 egg, hrærð
2 bollar brauðmylsna
olía til að steikja í
Aðferð
Settu avókadó í skál og stappaðu því saman við safann úr límónunni.
Bættu tómatnum út í, svo steinseljunni, salti og chilliduftinu. Hrærðu vel saman.
Skerðu laukinn í meðalþykka hringi, aðskildu þá varlega og leggðu á bökunarpappír. Fylltu svo hvern og einn með avókadó blöndunni og settu í frysti í klukkutíma.
Taktu nú fram þrjár skálar. Settu hveiti í eina, hrærðu eggin í aðra og brauðmylsnuna í þá þriðju.
Þá tekur þú hringina úr frystinum og veltir hverjum og einum fyrst upp úr hveitinu, síðan eggjunum og svo brauðmylsnunni.
Síðan veltir þú þeim aftur í eggjunum og að lokum aftur í brauðmylsnunni og þá eru þeir tilbúnir til steikingar.
Hitaðu olíuna upp í 180 gráður í nægilega stórum potti og djúpsteiktu laukhringina þar til þeir verða gullinbrúnir.
Þá tekur þú þá úr pottinum og leggur á eldhúsbréf svo öll auka olía leki af þeim.
Að lokum stráir þú salti og og kreistir límónusafa yfir hringina og berð þá fram með sýrðum rjóma.
Þetta er skothelt – Sjáðu hvernig þetta er gert hér í myndbandinu