Nú þegar landinn sleikir sólina á sólarströndum út um allan heim er ekki úr vegi að fá góð ráð varðandi húðina.
Með því að þekkja orsakir og einkenni húðkrabbameina er hægt að bregðast fljótt við þegar lækning við sjúkdómnum er möguleg.
Talið er að hægt væri að koma í veg fyrir um átta af hverjum tíu húðkrabbameinum ef allir færu eftir þeim ráðleggingum sem fagaðilar gefa.
Að meðaltali greinast árlega 40-45 einstaklingar hér á landi með sortuæxli og 10-15 látast. Fjöldi einstaklinga með sortuæxli á lífi í árslok 2013 var um 770, tvöfalt fleiri konur en karlar.
Fæðingarblettir, freknur og aðrir blettir
Húðin er stærsta líffæri líkamans. Hlutverk hennar er meðal annars að vernda líkamann fyrir áverkum, útfjólublárri geislun sólar og efnum sem eru líkamanum framandi, meðal annars bakteríum og veirum.
Í neðsta lagi yfirhúðar eru litafrumur, svokallaðar sortufrumur og þær framleiða dökkt litarefni, melanín, en hlutverk þess er fyrst og fremst talið vera að verja okkur fyrir útfjólublárri geislun sólarinnar. Þegar sólin skín á húðina eykst framleiðsla á melaníni og sortufrumum fjölgar. Húðin verður þá brúnni til að geta varið líkamann gegn sólargeislun.
Stór hluti litlu dökku blettanna, sem flestir eru með á húðinni, er samansafn margra sortufruma og eru kallaðir fæðingarblettir. Freknur eru ljósbrúnir blettir á húð sem stafa af aukningu litarefnis í grunnlögum húðar, t.d. eftir sólböð og fylgja ákveðinni húðgerð.
Sortuæxli í húð eru alvarlegustu húðkrabbameinin og í þeim hafa sortufrumur umbreyst í krabbameinsfrumur. Þau myndast oftast út frá óreglulegum blettum en geta einnig myndast sem nýir blettir.
Húðlæknar geta oft greint húðkrabbamein eða forstig þess með því að skoða húðina með berum augum eða með sérstöku tæki. Greiningin er svo staðfest með því að taka sýni sem sent er í vefjarannsókn.
Mikil aukning sortuæxla hér á landi
Húðkrabbamein leggjast einkum á húðsvæði sem verða fyrir miklu sólarljósi. Sortuæxli er alvarlegasta gerð húðkrabbameina sem er auðvelt að lækna greinist það á byrjunarstigi en getur verið erfitt við að eiga nái það að dreifa sér. Mikil aukning hefur verið á tíðni sortuæxla hér á landi, sérstaklega meðal ungra kvenna, samhliða aukinni notkun ljósabekkja og tíðari sólarlandaferðum.
Sólin sendir frá sér margar tegundir af geislum. Við þekkjum best útfjólubláu geislana UVA og UVB sem geta skemmt erfðaefni húðfruma og þannig leitt til öldrunar húðar og húðkrabbameina. Útfjólublá geislun er talin helsta orsök húðkrabbameina og því eru þeir sem mikið eru í sólarljósi eða ljósabekkjum í aukinni hættu á að fá sjúkdóminn. Þó svo að allir geti fengið sortuæxli þá eru nokkrir þættir sem auka líkur á myndun sortuæxla.
Hvað veist þú um sortuæxli og húðkrabbamein – Taktu prófið HÉR
Sjáðu líka hér í myndbandinu hvað húðlæknirinn segir
Allar upplýsingar fengnar af vefsíðu krabb.is