Öll vitum við að tilvera okkar hér á jörðinni er takmörkuð, en allt of oft gleymist að hver dagur er dýrmætur.
Einmitt þess vegna erum við kannski ekkert alltaf með hugann við það að nýta tíma okkar vel.
Lífið er óvissuferð
Það má segja að lífið sé nokkurs konar óvissuferð – við vitum aldrei fyrir víst hvar við endum eða hvenær og þótt við skipuleggjum og undirbúum okkur vel þá getur allt breyst á svipstundu.
Og þegar maður fer í óvissuferð þá lætur maður sig hlakka til og bíður spenntur hvað gerist næst. En auðvitað getur maður svo sem líka orðið kvíðinn gagnvart því óvænta.
Þannig er þetta líka í lífinu. Lífið er ein stór óvissuferð – en hún er mislöng hjá okkur því sumir eru í langri ferð á meðan aðrir fá mun styttri ferð. Þetta er ekkert alltaf sanngjarnt. Enda hefur enginn lofað okkur því að lífið sé sanngjarnt. Við erum jú í óvissuferð.
Þess vegna er svo mikilvægt að njóta hvers dags, að gera það sem stendur hjarta okkar næst – að lifa og vera til.
Litlu hlutirnir í lífinu eru þeir sem skipta mestu máli þegar upp er staðið. Og því ætti kannski frekar að kalla þá stóru hlutina. En litlu hlutirnir eru líka oftast þeir sem kosta ekki neitt og ættu að vera auðveldir í framkvæmd.
Njótum óvissuferðarinnar og njótum þess að vera til!
Hér eru 9 mikilvægir hlutir sem kosta ekkert og gefa lífinu gildi
1. Bros
2. Hlátur
3. Kossar
4. Faðmlög
5. Ást
6. Fjölskyldan
7. Vinir
8. Góðar minningar
9. Fyrirgefningin
Þegar upp er staðið eru það nákvæmlega þessir einföldu hlutir sem standa upp úr í óvissuferð okkar.
Að geta brosað í gegnum tárin, að geta hlegið með þeim sem okkur þykir vænt um, að geta gefið og þegið ást – og að geta yljað okkur við allar minningarnar sem fylgja óvissuferðinni.
Lifum núna og njótum ferðarinnar!