Við hér á Kokteil þreytumst seint á því að dásama eiginleika matarsódans og höfum ítrekað fjallað um og bent á aðferðir til að nota þetta hvíta undraduft. En matarsódi getur verið til margra hluta nytsamlegur og hann má hreint út sagt nota í hin ólíkustu verkefni.
Hér eru t.d. sex leiðir til að nota þetta hvíta undraduft á líkamann
1. Til að mýkja hendurnar
Ef húðin á höndunum er þurr og gróf prófaðu að nota matarsóda á þær. Blandaðu sódanum við vatn og sápu og nuddaðu hendurnar vel með blöndunni. Skolaðu síðan með volgu vatni. Þetta mýkir ekki aðeins hendurnar heldur eyðir lykt af höndunum eins og t.d. lauklykt sem sest í húðina þegar laukur er skorinn.
Einnig má nota sömu blöndu á aðra bletti og hörð og þurr svæði á líkamanum, eins og til dæmis olnboga og hné.
2. Til að eyða bólum
Búðu til blöndu úr matarsóda og örlitlu vatni og berðu á bólurnar. Þetta þurrkar upp bólurnar og eyðir þeim.
3. Í baðið
Settu lítinn bolla af matarsóda út í baðvatnið til að koma jafnvægi á sýrur í líkamanum sem valda bæði líkamslykt og gera húðina þurrari. Afraksturinn verður mjúk og geislandi húð.
4. Við andfýlu
Matarsódi er góður til að eyða lykt. Settu teskeið af matarsóda út í glas af vatni. Hrærðu vel í og skolaðu síðan munninn. Gorglaðu líka vel til að hreinsa hálsinn og tungurætur því þar eru miklar bakteríur. Gættu þess síðan að spýta öllu út úr þér.
5. Í hárið
Notaðu matarsóda til að hreinsa óæskileg efni úr hári og hársverði. Ekki er þó ráðlegt að setja matarsóda oftar en einu sinni í mánuði í hárið þar sem PH gildi hans er hátt.
6. Við húðhreinsun
Leikkonan Emma Stone, sem þykir hafa afar fallega og hreina húð, segir matarsódann frábæran til að hreinsa húðina og dauðar frumur. Hún segist blanda matarsóda við andlitsvatnið sitt en sódinn fjarlægir dauðar húðfrumur og bætir litaraftið.