Bubbi Morthens og hljómsveitin Dimma hafa tekið höndum saman og sett saman metnaðarfulla dagskrá sem þeir ætla að flytja í Hörpu annars vegar föstudaginn 6. mars og hins vegar á aukatónleikum þann 7. mars. Lofa þeir að hvergi verði slegið af og mega áhorfendur því vænta einstakra tónleika í íslenskri rokksögu. Á dagskránni eru lög af plötu Utangarðsmanna, Geislavirkir, og af plötu Das Kapital, Lily Marlene. Það má því búast við að lög eins og Hiroshima og Kyrrlátt kvöld við fjörðinn af plötu Utangarðsmanna fái að óma, sem og lögin Blindsker og Leyndarmál frægðarinnar af plötunni Lily Marlene.
Þetta verður eitthvað – og mega rokkarar eflaust eiga von á mögnuðum tónleikum.