Öll vonumst við til þess að fara í gegnum lífið án alvarlegra veikinda. Þótt maður geti aldrei tryggt sig gegn veikindum og sjúkdómum með einum eða öðrum hætti þá er engu að síður eitt og annað hægt að gera til að minnka líkurnar.
Krabbameinsfélagið gefur okkur t.d. hér ráðleggingar um hvað beri að varast og hvað megi gera til að draga úr líkum á krabbameini.
Hér eru tólf leiðir
1. Að vera reyklaus og tóbakslaus.
2. Að hafa heimilið reyklaust og vinna á reyklausum vinnustað.
3. Að hafa gætur á þyngdinni og halda henni heilsusamlegri.
4. Að hreyfa sig daglega og hafa það sem hluta af daglegu lífi. Og ekki sitja lengi í senn.
5. Að neyta fjölbreyttrar og næringarríkrar fæðu – auðvitað í hæfilegu magni.
Og eftirfarandi er gott að hafa í huga:
- Borða grænmeti, ávexti, fisk, heilkorn og baunir.
- Borða sem minnst af orkuríku fæði, sérstaklega sælgæti og drykkjum með viðbættum sykri.
- Forðast unnar kjötvörur.
- Takmarka rautt kjöt og saltríkt fæði.
6. Að neyta áfengis í hófi.
7. Að forðast mikla sól og ekki nota ljósabekki. Nota sólarvörn og klæða sólina af sér.
8. Að fylgja öryggisleiðbeiningum um þekkta krabbameinsvalda á vinnustað.
9. Og þetta er sérsktaklega fyrir konur:
- Ef þú átt/eignast börn er um að gera að hafa þau á brjósti – sé þess kostur.
- Og takmarka notkun tíðahvarfahormóna á breytingaskeiði.
10. Að stunda öruggt kynlíf.
11. Að taka þátt í skipulagðri hópleit hjá Krabbameinsfélaginu
- Leghálskrabbamein (konur 23-65 ára).
- Brjóstakrabbamein (konur 40-69 ára).
12. Að ræða við lækni um leit að ristilkrabbameini (karlar og konur 50 ára og eldri) – og fara í þannig skoðun.
Heimildir: Krabbameinsfélagið (European Code Against Cancer).