Við vitum flest að megrunarkúrar eru ekki rétta leiðin til að léttast og halda línunum í lagi. Enda höfum við flest prófað eitthvað slíkt í gegnum tíðina.
Við hér erum fylgjandi hollum og góðum mat sem gerir eitthvað fyrir okkur og þar með líkama okkar. Og það eiga þessar tíu fæðutegundir hér að neðan sameiginlegt – en þær hjálpa allar til við að brenna fitu.
Tíu fæðutegundir sem auka brennsluna
1. Egg
Egg eru ein af þeim fæðutegundum sem hafa verið flokkuð sem ofurfæða. Þau innihalda fáar hitaeiningar en eru aftur á móti afar rík af góðum næringarefnum. Rannsóknir sýna að borðir þú egg í morgunmat eru yfirgnæfandi líkur á því að þú neytir færri hitaeininga yfir daginn.
2. Bláber
Bláber falla einnig í flokk ofurfæðu og eins og eggin innihalda þau fáar hitaeiningar. En það er ekki nóg að borða bara bláber í múffum og öðru slíku heldur er gott að tína þau beint upp í sig. Hálfur bolli af bláberjum inniheldur aðeins 40 hitaeiningar. Bláber eru líka tilvalin í salatið, skyrið, jógúrtina og smoothie.
3. Grape ávöxtur
Grape ávöxturinn er ríkur af c-vítamíni sem hjálpar til við fitubrennslu. Að borða hálft grape í morgunmat eða 30 mínútum fyrir mat veitir fyllingu og kemur í veg fyrir að þú borðir yfir þig.
4. Epli
EPLI, og reyndar aðrir ávextir, eru góð leið til að brenna og minnka mittismálið. Með því að borða ávexti má svala sykurþörfinni á hollan hátt. Ef eplin eru borðuð með hýðinu innihalda þau mikið af trefjum, sem er gott fyrir meltinguna.
5. Möndlur
Möndlur, og einnig hnetur, hjálpa líkamanum að brenna fitu. Möndlur eru ekki dýrar og því tilvalið að kippa þeim með sér til að eiga þegar hungrið sverfur að. Þær eru stútfullar af próteini, trefjum og góðri fitu fyrir hjartað.
6. Grænmeti
Grænmeti er eitt af því sem talið er nauðsynlegt til að brenna fitu. Það er stútfullt af góðum og mikilvægum næringarefnum eins og t.d. trefjum.
Ef grænmeti er ekki nú þegar á matseðlinum hjá þér væri afar skynsamlegt að bæta því við. Ráðlagt er að neyta að minnsta kosti því sem samsvarar tveimur til þremur bollum af grænmeti á dag.
7. Kínóa
Kínóa er nokkuð sem margir hafa fallið fyrir, en ekki er langt síðan fólk fór að neyta þess í ríkum mæli hér á landi. Það er ríkt af trefjum, próteini og góðum fitusýrum.
Kínóa má nota á ýmsan máta, t.d. sem meðlæti í staðinn fyrir hrísgrjón og kúskús, í morgungraut eða sem aðalundirstöðu í máltíð.
8. Kaffi
Kaffi er líklega einn vinsælasti drykkur í heimi. Og fyrir kaffiunnendur eru það góð tíðindi að það sé gott fyrir brennsluna.
Kaffi er talið hraða meltingunni en hafa þarf í huga að um leið og sykur og rjómi fara út í kaffið er það um leið orðið fitandi.
9. Grænt te
Grænt te er víst virkilega gott til að brenna fitu. Það er fullt af andoxunarefnum sem hjálpa til við að hraða meltingunni. Áhrifaríkast er að drekka teið vel heitt og ekki er verra að bæta sítrónu og örlitlu hunangi út í.
10. Svartur pipar
Einfalt er að bæta svörtum pipar í fæðuna. Efni í piparnum er talið draga úr myndun fitufruma í líkamanum. En auk þess hraðar svartur pipar fyrir meltingunni.
Þá er bara að vera dugleg/ur að krydda matinn með svörtum pipar.