Það eru margir í dag sem reyna að sneiða hjá viðbættum sykri – en það getur hins vegar verið erfitt að halda sig alveg frá sætindum. Og þá er um að gera að leita leiða til að svala þörfinni.
Sykurlaus súkkulaðikaka
Hér er uppskrift að sykurlausri súkkulaðiköku frá henni Lilju Katrínu á blaka.is. En hún er alveg jafnmikill sælkeri og við hér á Kokteil og ekki vön því að baka sykurlausar kökur. En Lilja Katrín segir þessa köku vera alveg einstaklega góða.
Það sem þarf
115 gr sykurlaust, dökkt súkkulaði
½ bolli kókosolía
2/3 bolli hunang
3 egg
½ bolli gott kakó
1 tsk instant kaffi (má sleppa)
¼ tsk sjávarsalt
Aðferð
Hitið ofninn í 180°C og smyrjið hringlaga form, ca 18-20 sentímetra, með kókosolíu.
Blandið súkkulaði og kókosolíu saman í skál og hitið í örbylgjuofni þar til allt er bráðnað saman. Passið samt að hræra í blöndunni á 30 sekúndna fresti svo þetta brenni ekki við.
Blandið hunanginu saman við súkkulaðiblönduna og síðan eggjunum – einu í einu.
Bætið restinni af hráefninu saman við og hrærið vel saman.
Hellið í formið og bakið í 25 mínútur.
Skreyta má kökuna með ferskum berjum eða smá flórsykri ef vill.
jona@kokteill.is