Þegar við pöntum okkur vínglas eða kaupum okkur flösku af léttvíni hugsum við ekkert sérstaklega út í það að val okkar á víni geti sagt eitthvað um persónuleika okkar.
Fyrst og fremst erum við auðvitað að fara eftir eigin smekk og því sem okkur finnst bragðgott. En er ekki alveg líklegt að val okkar endurspegli persónuleika okkar á einhvern hátt?
Flestir eiga sitt uppáhalds vín
Flest eigum við okkar uppáhalds vín og margir einnig sína uppáhalds þrúgu. Sumir leggjast í sortir, eins og sagt er, og velja sér gjarnan sömu þrúguna frá sama landinu eða héraðinu.
Vissulega er það persónulegt mat hvers og eins hvernig vín bragðast, en þegar vín er metið eru ákveðin atriði sem hafa þarf í huga. Það er síðan heildarbragð vínsins sem ræður vali okkar. Þegar talað er um heildarbragð er átt við sambland lyktar og bragðs. Þar sem við erum öll ólík og höfum ekki sama lyktar- og bragðskyn er misjafnt hvaða vínþrúga höfðar til okkar.
Skoðum nokkrar hvítvínsþrúgur
Það er ekki úr vegi að skoða nokkrar vínþrúgur og sjá hvað einkennir þá einstaklinga sem velja þær þrúgur. Hér eru nokkrar hvítvínsþrúgur og auk þess kampavín og freyðvín.
Chardonnay-þrúgan
Gefur af sér vín með mikla fyllingu og ríkan ilm. Vínið þroskast vel og í því má finna bragð af eplum, perum, sítrusávöxtum, melónum, ferskjum, smjöri, hunangi, karamellu og vanillu. Vínið hefur sín eigin einkenni og er aldrei með of mikla skerpu af sýru.
Þeir sem velja að drekka Chardonnay eru skemmtilegir, glaðlegir, mannblendnir og vita hvað þeir vilja.
Riesling-þrúgan
Við hentug skilyrði á Riesling-þrúgan að geta gefið af sér ríkulegt ávaxtaeinkenni og líflegt sýrujafnvægi. Í víninu má finna krydduð bökuð epli, stökk græn epli, appelsínu, hunang og ristað brauð.
Þeir sem kjósa Riesling eru hrifnir af margbreytileika en eru um leið þessi þolinmóða týpa sem er reiðubúin að bíða og bíða í voninni um að öðlast og uppskera það besta.
Zinfandel-þrúgan
Er aðallega ræktuð í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Nákvæmlega sama þrúgan er notuð í bæði rauðvín og hvítvín. Áður en hvítvínið er búið til er skinnið tekið af rauðu berjunum. Með því að taka skinnið af verður bragð vínsins létt og sætt. Hvítt Zinfandel er ljósbleikt vín og er iðullega flokkað með svo kölluðum Blush vínum.
Þeir sem velja hvítt Zinfandel í sitt glas, eða þá rósavín, eru heimakærir einstaklingar sem hafa ekki of mikla þekkingu á víni. Þeir sem hins vegar vilja þurrt rósavín frá Provence í Frakklandi eða Toscana á Ítalíu eru ævintýragjarnir töffarar sem vilja ögrandi bragð.
Kampavín og freyðivín
En hvað með þá sem vilja helst drekka kampavín og freyðvín?
Þeir sem velja þennan gyllta mjöð eru einstaklingar sem eru ákveðnir í því að njóta lífsins til fulls þrátt fyrir að virðast, á köflum, dálítið óðir.
HÉR má sjá umfjöllun um rauðvín og rauðvínsþrúgur.