Túrmerik hefur verið notað sem krydd, lækningajurt og litarefni í Suðaustur-Asíu frá því um 600 fyrir Krist. Og er hér því um ævaforna aðferð að ræða.
Túrmerik talið hafa jákvæð áhrif á líkamann
Rótin hefur verið notuð um aldir gegn bólgum í líkamanum, liðagigt, magavandamálum, ýmsu ofnæmi, lifrarvandamálum og brjóstsviða. Þetta er eitt öflugasta andoxunarefni svo vitað sé og eykur það blóðflæði og þanþol æða. Þannig kemur það jafnvægi á blóðþrýstinginn og bætir um leið hjarta- og æðakerfið.
Þá er það talið koma í veg fyrir skemmdir á innri líffærum, eins og t.d. heila, og hefur túrmerik verið viðfangsefni ótal vísindarannsókna undanfarin ár í tengslum við Alzheimer og Parkinson. Þá er einnig talið að jurtin geti haft áhrif á krabbameinsvöxt. Hægt er að kaupa túrmerik þurrkað í dufti sem krydd og einhverjir staðir selja líka rótina sjálfa.
En vissirðu að það er ekkert flókið að rækta sitt eigið túrmerik?
Það má auðveldlega gera innandyra og þess vegna í eldhúsglugganum. Eina sem þú þarft er túrmerikrót sem þú ættir að finna í heilsubúðum.
Aðferð
Brjóttu stóra rót, sem er með nokkrum öngum, í smærri hluta sem er með þremur öngum.
Fylltu pott, eða potta, með lífrænni mold sem er aðeins rök. Best er ef ph-gildið er 4.5 til 7.5.
Settu rótina ofan í – svona fimm sentrímetrum undir yfirborðið. Og láttu angana snúa upp.
Vökvaðu svo annan hvern dag og haltu moldinni rakri en ekki blautri.
Hvenær er rótin tilbúin?
Það tekur um sex til tíu mánuði þar til rótin er tilbúin.
Þú sérð það á því að blöð plöntunnar verða gul og þorna upp.
Þá tekurðu alla plöntuna upp með rótum.
Klipptu af það sem þú vilt nota og settu síðan rótina aftur ofan í moldina.
Þú getur síðan geymt það sem þú klipptir af í vel lokuðu íláti á köldum og dimmum stað. Rótin ætti að geymast í hátt í sex mánuði.
Ef þú ert vön/vanur að nota þurrkað túrmerik, þ.e. krydd úr búðinni, farðu þá varlega með þetta ferska heimaræktaða. Það er miklu bragðmeira og þú þarft að nota mjög lítið af því í einu.