Gott meðlæti getur skipt sköpum og breytt einfaldri máltíð í frábæra máltíð.
En hver kannast ekki við það að grípa í sama meðlætið aftur og aftur?
Ég er ein af þeim og tek gjarnan ástfóstri við ákveðna rétti sem mér finnst góðir og einfaldir í framkvæmd – og eru sætar kartöflur þar ofarlega á blaði.
En svo kemur auðvitað að því að maður skellir í eitthvað nýtt og spennandi og þessi réttur hér er einn af þeim. Og auðvitað inniheldur hann sætar kartöflur… en líka svo margt annað.
Ég hvet ykkur til að prófa því þessi svíkur ekki.
Það sem þarf
1 stóra sæta kartöflu
1 stóra gula kartöflu
1 meðalstóran rauðlauk
2 – 3 msk ólífuolíu
2 – 3 msk ósaltað smjör
5 hvítlauksrif
1 tsk timían
½ tsk oregano
½ tsk basilíka
1/3 bolli parmesan ostur
salt og svartur pipar til að bragðbæta
fersk steinselja til að dreifa yfir að lokum ef vill
Aðferð
Hitið ofninn að 210 gráðum.
Þrífið kartöflurnar og skerið þær síðan í þunnar sneiðar án þess að skræla, innan við 1 cm að þykkt.
Skerið laukinn líka í þunnar sneiðar.
Smyrjið eldfast mót eða fat og raðið kartöflunum og lauknum til skiptis í fatið, en ekki beint ofan á hvert annað heldur í röð.
Bræðið smjörið og blandið því saman við ólífuolíuna ásamt kryddi, hvítlauk, parmesan osti, salti og pipar.
Smyrjið síðan þessari blöndu á kartöflurnar og laukinn.
Setjið inn í ofn og bakið í 45 til 60 mínútur eða þar til kartöflurnar eru mjúkar í miðjunni og stökkar á brúnum.
Takið þá út og stráið ferskri steinselju yfir ef vill.
Njótið síðan með hverju því sem hugurinn girnist. En auk þess sómir þessi réttur sér vel einn og sér á brunch-borðið.
jona@kokteill.is
Uppskrift frá eatwell101.