Sumir karlmenn geta verið svolítið latir þegar kemur að útlitinu og persónulegri umhirðu.
Ef þú ert einn af þeim, hvort sem þú ert einhleypur eða ráðsettur, er kominn tími til að bretta aðeins upp ermar og bæta um betur.
Það er t.d. afar mikilvægt að hafa þessa hluti hér að neðan í lagi.
Sex algeng mistök sem karlmenn gera
1. Að nota allt of mikinn rakspíra
Flestum konum líkar það vel þegar karlmenn nota góðan rakspíra eða ilmvatn. En of mikið af því góða getur haft þveröfug áhrif. Notaðu lykt sem hæfir þér og ef þú notar ilmvatn spreyjaðu þá tvisvar á úlnliðinn og bak við eyrun.
2. Ósnyrtar neglur
Neglurnar segja mikið um persónulegt hreinlæti hvers og eins. En það að hafa snyrtilegar hendur og neglur þýðir ekki að þú þurfir að fara í handsnyrtingu einu sinni í viku. En þú ættir hiklaust að eiga naglabursta og nota naglaklippur reglulega.
3. Slæm húð
Menn eru, í miklu meiri mæli en áður, farnir að hugsa um húðina á sér og nota andlitskrem. En allt of margir karlmenn eru enn smeykir við þetta. Óhrein húð getur verið svakalega fráhrindandi. Menn sem hugsa ekki um andlitið á sér eldast líka hraðar og líta verr út.
Þú ættir kannski að hugsa um að taka nokkrar mínútur á dag til að hreinsa húðina með andlitsvatni sem hentar þinni húðtegund. Nota sólarvörn þegar þess er þörf og gættu þess að velja góðar vörur þegar kemur að rakstrinum.
4. Slæm tannhirða
Að hafa tennurnar ekki í standi er frekar óaðlaðandi. Góð tannhirða skiptir öllu máli.
Ef þess þarf, farðu og láttu hreinsa á þér tennurnar og ef það vantar í þig tönn/tennur láttu laga það. Tannlæknakostnaður getur verið hár, en líttu á kostnaðinn sem góða fjárfestingu.
5. Að fela skalla
Við vitum að það að missa hárið getur verið svakalegt áfall fyrir sjálfstraustið, en fyrir alla muni ekki reyna að fela skallann og greiða yfir hann.
Ef / þegar þetta fer að gerast hjá þér, ráðfærðu þig við klipparann þinn um hvað sé hægt að gera í stöðunni. Rakaðu allt af og berðu skallann með stolti. Það er miklu betra.
6. Sóðalegt skegg
Ef þú ert með skegg gættu þess þá vel að halda því bæði hreinu og snyrtilegu. Þarna er jú fullt af hárum og eins og við öll vitum verður hár bæði óhreint og úr sér vaxið.
Það er frekar fráhrindandi að finna vonda lykt af skeggi eða jafnvel sjá matarleifar í því. Eins gerir skeggið ekkert fyrir þig ef það er úr sér vaxið og ósnyrt.