Það er leikur einn að henda í þetta dásamlega súkkulaði bananabrauð og eitthvað sem allir ættu að ráða við.
Brauðið er einstaklega mjúkt og „djúsí“ – en það er blanda af smjöri, olíu og púðursykri sem spilar stóran þátt í því.
Gætið þess að ofbaka ekki brauðið. Stingið í það til að vera viss um að það sé rétt bakað og það gæti borgað sig að stinga ekki aðeins í miðjuna heldur á fleiri staði.
Uppskrift frá Mariu á Two Peas and their Pod.
Það sem þarf
1 bolla hveiti
½ bolla dökkt kakóduft
1 tsk matarsóda
½ tsk sjávarsalt
3 stóra og vel þroskaða banana (1 og ½ bolli kramdir)
¼ bolla ósaltað smjör, bráðið og aðeins kælt
¼ bolla matarolíu
¾ bolla púðursykur
1 stórt egg, við stofuhita
1 tsk vanilludropa
1 bolla dökka súkkulaðidropa
Aðferð
Byrjið á að hita ofninn að 180 gráðum og smyrjið/spreyjið form sem er um 23×13 cm að stærð.
Hrærið hveiti, kakó, matarsóda og salti saman í skál. Setjið til hliðar og geymið.
Setjið bananana í skál og stappið vel.
Bætið bráðnu smjörinu út í ásamt matarolíunni og hrærið saman.
Blandið þá púðursykri, eggi og vanilludropum saman við og hrærið þar til blandan er orðin mjúk (best að gera þetta í höndunum en ekki í vél).
Setjið þá þurrefnin út í blönduna og blandið vel saman með sleif eða sleikju.
Bætið að lokum ¾ bolla af súkkulaðidropunum út í og geymið restina.
Hellið deiginu í formið og dreifið restinni af súkkulaðidropunum þar yfir.
Bakið í 60 til 65 mínútur, eða þar til pinni/tannstöngull sem stungið er í mitt brauðið kemur að mestu hreinn upp.
Takið þá út úr ofninum, setjið á grind og látið kólna í forminu í svona 15 mínútur.
Notið síðan hníf til að losa um brauðið í forminu og takið það úr því. Látið brauðið aðeins kólna áður en það er skorið niður. Það má samt alveg vera vel volgt.