Það er óhætt að óska Garðbæingum til hamingju með nýjasta veitingastað bæjarins.
En í síðustu viku opnaði nýr og glæsilegur staður á Garðatorgi í Garðabæ. Staðurinn, sem heitir Nü Asian Fusion, býður upp á hollan og næringarríkan mat og er mikill metnaður lagur í matreiðsluna.
Aðalsmerki staðarins er ferskt hráefni og eins og nafn hans gefur til kynna er matseðillinn undir japönskum fusion áhrifum.
Gott að fá stæði
Fyrir okkur sem búum í Garðbæ og nágrenni er þetta hreint út sagt frábær viðbót á Garðatorgið en þar er nú fyrir veitingastaðurinn Mathúsið sem er í eigu sömu aðila. Það er mikill kostur að þurfa ekki að fara langar vegalengdir til að finna góðan veitingastað, fyrir utan hvað það er gott að fá stæði.
Glæsilegur en um leið látlaus
Ég verð að viðurkenna að ég var búin að bíða spennt eftir að Nü Asian Fusion opnaði enda afar veik fyrir asískum mat – og var ég mætt strax í hádeginu daginn sem staðurinn opnaði. Hönnun og andrúmsloft staðarins olli ekki vonbrigðum en greinilegt er að mikið var í lagt til að gera staðinn sem glæsilegastan en þó um leið látlausan. Stólar og borð staðarins eru t.d. frá hönnuðinum Tom Dixon og öll lýsing frá versluninni Lumex. Virkilega vel heppnað og er staðurinn einstaklega notalegur.
Andrúmsloft og umhverfi skipta mig miklu máli þegar ég fer út að borða enda getur það gert góðan mat enn betri. Framsetning matarins er líka mikilvægur þáttur og getur svo sannarlega kitlað bragðlaukana. Þetta tvennt er Nü Asian Fusion alveg með á hreinu. Og auk þess er þjónustan alveg til fyrirmyndar.
Dásamlegur matur
Ég og borðfélagi minn ákváðum að fá okkur fjóra rétti til að deila og smakka – tvo smárétti og tvo aðalrétti. Fyrir valinu að þessu sinni urðu Edamame baunir með engiferkryddi, Hirata Buns með Confit Önd, Jungle Grænt Karrý og Lax.
Edamame baunir
Við byrjuðum á baununum þar sem þær eru tilvaldar til að narta í fyrir mat. Þær eru kryddaðar með engiferi og eru virkilega góðar. Mæli fullkomlega með þeim til að hefja máltíðina.
Hirata Buns
Næsti réttur var Hirata Buns fylltar með kjöti af andalæri. Ég er búin að hugsa um þennan rétt síðan þá þar sem hann var svo rosalega góður. Segja má að Buns sé nokkurn veginn asíska svarið við samlokum, hamborgurum og tacos. Þær eru gjarnan fylltar með svínakjöti en þessar hjá þeim á Nü Asian Fusion með andakjöti eru einhvern veginn meira „gourmet“.
Grænt karrý
Næsti réttur var Grænt Karrý með kjúklingi, Portobello sveppum, baby maís og aspas. Mjög góður réttur sem ég myndi tvímælalaust fá mér aftur.
Lax
Síðasti en alls ekki sísti rétturinn var laxinn. Hann var borinn fram með soba núðlum, grænmeti, asísku pestó og kóríander. Þessi réttur fannst mér einstaklega góður, laxinn var með dásamlega bragðgóðum gljáa og eiginlega hinn fullkomni réttur fyrir þann sem finnst lax góður og vill fá hann eldaðan á ólíkan máta.
Í næstu ferð
Það hljómar kannski einkennilega en þar sem ég er svo mikið matargat er ég strax farin að huga að því hvað ég ætla að fá mér í næstu heimsókn á Nü Asian Fusion – og er Tokyo þorskurinn og Salat með nautakjöti eða önd ofarlega á blaði. En ég er líka handviss um að ég geti ekki stillt mig um að panta Hirata Buns með confit önd.
Ég er virkilega ánægð með þessa viðbót í Garðabæinn og óska eigendum innilega til hamingju með þennan glæsilega stað.
Jóna Ósk Pétursdóttir