Fyrir um fjórum árum síðan var ég svo heppin að heimilislæknirinn minn hætti að vinna sökum aldurs. Já, mér finnst ég hreinlega hafa dottið í lukkupottinn það árið.
Ekki það að læknirinn minn hafi ekki verið góður og umhyggjusamur, hann var það – en hann hafði bara svo marga sjúklinga á sinni könnu.
Nýr læknir og blóðprufur
Ég þurfti sem sagt að finna nýjan lækni og ég var heppin að finna lækni sem var ekki með allt of marga einstaklinga á sinni könnu. Þegar sá læknir tók við mér vildi hann vita allt um heilsufar mitt og eftir viðtal sendi hann mig í ítarlega blóðrannsókn. Stuttu seinna fékk ég símtal frá honum þar sem hann sagði mér að gildi mín vegna B12 væru allt, allt, allt of lág og bætti við að ég yrði að vera á meðferð við því ævilangt. Hann spurði mig líka hvort ég borðaði ekki kjöt og aðrar vörur úr dýraríkinu, sem ég játti.
Vissi í raun ekki hvað þetta þýddi
Í fyrstu vissi ég í raun lítið um hvað málið snerist og fannst skrýtið að eitthvað athugavert hefði fundist í blóðprufunum enda verið frekar heilsuhraust ef frá eru talin veikindi í æsku. Ég hélt að þessi B12 skortur væri því lítið mál. En maður minn hvað ég hafði rangt fyrir mér – því þegar ég fór að skoða þetta ofan í kjölinn runnu á mig tvær grímur. B12 skortur er nefnilega dauðans alvara og getur haft virkilega alvarlegar afleiðingar.
Þegar ég fór að kynna mér hvað orsakaði B12 skort og hver einkennin væru small þetta allt saman. Líðan mín undanfarin ár passaði nákvæmlega við þessar lýsingar – en ég hafði hins vegar skellt þessu öllu á breytingaskeiðið, sem líklega var kæruleysi af minni hálfu.
En helstu einkenni eru
Þreyta (þótt þú sofir nóg)
Slappleiki og máttleysi
Þokukenndur heili
Ör hjartsláttur
Mæði
Föl húð
Hægðatregða, niðurgangur, minni matarlyst, uppþemba
Dofi eða náladofi í höndum og fótum
Eymsli í vöðvum og vandamál við gang
Verri sjón, trufluð sjón, þoka, ljósnæmi og að sjá tvöfalt.
Andleg vandamál eins og þunglyndi, minnisleysi og breytingar á hegðun
Mjúk tunga (litlu hnúðarnir á henni hverfa og jafnvel bragðskynið líka)
Og það sem mér fannst alvarlegast af þessu öllu er að B12 skortur getur leitt til Alzheimers og minnisglapa sé hann viðvarandi lengi án meðferðar. Það er virkilega ógnvænlegt að vita ekki til þess að líkamann vanti B12 og stefna svo hægt og rólega í átt að Alzheimers. Líkaminn framleiðir ekki B12 svo við þurfum að fá það úr fæðu úr dýraríkinu eins og rauðu kjöti, fuglakjöti, eggjum, fiski og mjólkurvörum. Eða þá í formi fæðubótarefna og það þarf að gerast oft því líkaminn geymir þetta vítamín ekki lengi.
Ekki neitt venjulegt vítamín
B12 er ekki neitt venjulegt vítamín en því má líkja við orkubolta. Það hjálpar til við að búa til þitt DNA og tauga- og blóðfrumur. Auk þess er það afar mikilvægt fyrir virkni heilans, ónæmiskerfið og meltinguna.
Með aldrinum minnkar geta líkamans til að vinna B12 úr fæðunni og því er þessi skortur algengari hjá fólki sem farið er að eldast. Sérfræðingar segja þess dæmi að eldra fólk hafi verið greint með Alzheimer þegar raunveruleg ástæða minnisleysisins hafi verið skortur á B12.
Sé B12 skortur viðvarandi getur hann valdið alvarlegum og óbætanlegum skemmdum á taugakerfinu. Hér er um að ræða alvarlegt minnisleysi, skort á einbeitingu og að vera mikið utan við sig og ruglaður. Aðrar varanlegar aukaverkanir geta verið taugaskemmdir, svefnleysi, ristruflanir og jafnvel vandamál með hægðir og þvag.
En góðu fréttirnar eru þær að sé þetta greint í tíma má bregðast við og snúa dæminu við.
Hjartað ætlaði út úr bringunni
Í mínu tilfelli þá hafði ég verið úthaldslítil í langan tíma, heilaþokan var mikil og tók það oft langan tíma að gera einföld verk. Ég var síþreytt. Þá var dofi í fingurgómum viðloðandi, náladofi í fótum og sjónin þokukennd. Og stundum hélt ég að hjartað ætlaði út úr bringunni á mér en slíkur var hjartslátturinn. Minnið var ekki upp á sitt besta og grínaðist ég með það að ég væri komin með Hálfzheimers. Auðvitað alls ekki fyndið en hvað gerir maður þegar minnið bregst manni aftur og aftur! Og það sem mér fannst rökréttasta skýringin á þessu öllu var að breytingaskeiðið væri að leika mig svona grátt.
Í mínu tilfelli nær líkaminn ekki að vinna B12 úr fæðunni og tengist það víst erfðum. En meðferð við B12 skorti felst í réttu mataræði, sprautum eða töflum. Í mínu tilviki var rétt mataræði greinilega ekki nóg og ræddi læknirinn minn við mig um þá tvo möguleika sem í boði voru. Annars vegar að mæta í sprautur til hans reglulega eða taka töflur fyrir lífstíð, eina litla á hverjum morgni. Ég valdi að taka seinni kostinn þar sem mér finnst of mikið vesen að fara oft á ári til læknis í sprautur fyrst ég get verið laus við það.
Gildin fóru upp með réttri meðferð
Eftir þrjá mánuði fór ég aftur í blóðprufu og þá voru gildin mín heldur betur komin upp og ég í ágætis málum – töflurnar voru klárlega að gera sitt. Hálfu ári seinna var ég orðin allt önnur, verkefnin þvældust ekki lengur fyrir mér, einbeitingin var orðin eins og áður og minnið skrilljón sinnum betra. Þá var ég heldur ekki síþreytt og dofinn úr fingurgómum farinn og enginn ör hjartsláttur lengur upp úr þurru.
Ég hef líka fengið sprautur þar sem að töflurnar mínar voru ekki til á landinu á tímabili. Þá fór ég þrisvar sinnum í sprautu og fannst það ekki virka nógu vel á mig. Vissulega virkaði sprautan, þótt mér hafi orðið illt af þeirri fyrstu, en ég gleymi síðan að fara aftur og þá hellist þreytan, slappleikinn og einbeitingarleysið yfir mann. Með töflunum er ég stöðug.
Já mér finnst ég vera heppin! Því hvað ef ég hefði ekki farið í þessa blóðprufu þarna um árið! Þá væri þessi skortur líklega búinn að valda óafturkallanlegum skaða.
jona@kokteill.is