Það er engum hollt að vera sífellt með nagandi samviskubit.
En rannsóknir leiða í ljós að 96 prósent kvenna fái samviskubit að minnsta kosti einu sinni á dag og stór hluti kvenna segist fá samviskubit allt að fjórum sinnum á dag.
Hvað er málið?
Eru konur svona samviskusamar að eðlisfari og er þetta því eitthvað líffræðilegt?
Of miklar kröfur?
Eða er kannski stóri þátturinn í þessu sá að konur gera allt of miklar kröfur til sín? Og þegar kröfurnar eru orðnar of miklar þá bogna þær og allt það sem þær ætlast til af sér sjálfum getur einfaldlega ekki gengið upp.
Konur eru svo vanar því að hugsa um aðra enda kannast líklega flestar konur við það að setja þarfir annarra á undan sínum eigin. Þetta er dæmigerð hegðun og tengist eflaust bæði líffræðilegum þáttum sem og samfélagslegri mótun. Flestar konur tala til dæmis um að samviskubitið aukist eftir að þær eignast börn. Oft er ástandið það slæmt að konur hreinlega missa svefn vegna nagandi samviskubits.
Að valda öðrum vonbrigðum
Fjölmargar ástæður geta legið að baki samviskubitinu. Það er ekki bara eitthvað eitt sem þjakar konur þótt sumt vegi vissulega þyngra en annað. Helstu ástæðurnar eru fjarvera frá börnum, vinnan, óhollt mataræði, líkamsþyngd og að valda öðrum vonbrigðum.
Konur vilja standa sig vel í vinnu og klífa metorðastigann – en um leið gera þær kröfur til sjálfra sín um að vera ofurmæður. Það krefst töluverðs jafnvægis milli vinnu og einkalífs og er hægara sagt en gert. Samviskubitið nagar í vinnunni þegar konan er ekki að sinna börnunum og svo öfugt þegar hún er ekki í vinnunni.
Sérstaklega er það móðurhlutverkið sem kemur inn samviskubiti hjá konum en einnig hlutverk þeirra sem eiginkonur og dætur. Þegar konur setja ekki aðra í fyrsta sæti finnst þeim þær ekki vera að sinna hlutverki sínu og fyllast því samviskubiti.
Að kunna að segja nei
Flestum konum finnst erfitt að segja nei og forðast margar það eins og heitan eldinn. Ástæðan er sú að konur vilja ekki vera álitnar vondar og grimmar. En það er ákaflega mikilvægt að kunna að segja nei. Þótt það geti verið erfitt þá kemur það með tíma og æfingu. Þetta sem sagt venst alveg. Það besta er samt að þetta einfaldar lífið til muna. Og hvers vegna að vera að flækja lífið!
Þótt mörgum konum finnist þær vera ómissandi þá er það ekki þannig. Þær þurfa ekki að hafa puttann í öllu sem gerist – en um leið og þær sleppa takinu öðlast þær sjálfar meira frelsi.
Slökum aðeins á kröfunum og hættum að bera okkur saman við aðra. Það hefur ekkert upp á sig að vera að velta sér upp úr hlutunum til þess eins að fá samviskubit. Lífið er allt of stutt til að vera með samviskubit yfir einum og einum súkkulaðimola, óhreina þvottinum, rykinu sem liggur yfir öllu, því að þú bakir allt of sjaldan, að þú prjónir ekki á börnin, að þú kaupir tilbúinn mat… og svona mætti endalaust áfram telja.
Höfum síðan í huga að allir geta eitthvað en enginn getur allt!
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com