Í dag er mikið talað um að borða hreint og þar sem við á Kokteil aðhyllumst ekki megrunarkúra, en erum afar hlynnt hollum og góðum mat, vildum við kynna okkur hvað felst í því að borða hreint. Eitt og annað hefur verið ritað um hreint mataræði og kíktum við m.a. í bókina Hreint mataræði eftir Dr. Alejandro Junger sem nýlega kom út hjá Sölku. Í bókinni mætast vestrænar og austrænar lækningar. Bókin hefur setið mánuðum saman á metsölulista New York Times,enda boðar hún lausnir sem eru viðurkenndar, bæði hjá fagfólki og þeim sem reynt hafa.
Í umfjöllun um bókina segir m.a.:
Hreint mataræði er aðferð sem hægt er að nota til að endurbyggja sig, jafnt líkamlega og andlega. Þessi þriggja vikna áætlun er gerð með þarfir önnum kafins fólks í huga; einföld og hagnýt afeitrun sem hentar daglegum þörfum okkar og athöfnum. Hin náttúrulega hæfni líkamans til að hreinsa sig vaknar og áhrifin láta ekki á sér standa.
Við grípum hér aðeins niður í 6. kafla bókarinnar:
Algeng rót truflana:
Grafið eftir svörum
Flestir vanmeta mikilvægi góðrar þarmaheilsu. Önnur líffæri, eins og hjartað (konungur líffæranna) standa í sviðsljósinu. En eins og ég komst að reyndust upplýsingar um þetta kerfi vera týndi hlekkurinn milli iðraólgunnar í mér og þunglyndisins.
Meltingarvegurinn er eins og rót plöntunnar; hvort tveggja er hulið, hvort tveggja tekur í sig vatn og næringarefni og ef um veikindi er að ræða getur hvort tveggja sýnt einkenni í líffærum óravegu í burtu, eins og laufblöðum eða greinum eða húð og hári. En í þessari rót er falið eitt það kerfi sem mikilvægast er mannslífinu: nákvæm vél með færni og virkni sem ekki gerir okkur aðeins kleift að öðlast byggingarefnin og efnasamböndin sem skapa líkama okkar, heldur einnig að sjá hverju má treysta í lífinu. Vélin er svo fíngerð að hún krefst mjög sérstakra aðstæðna til að viðhalda jafnvægi. Náttúran er hönnuður hennar og sá henni einnig fyrir fullkomnum aðstæðum. Þegar við snerum baki við aðferðum náttúrunnar versnuðu aðstæður til fullkominnar meltingarstarfsemi. Þegar meltingarfærin eru í kreppu er næringarskortur líklegur. En innsæið getur líka liðið fyrir það.
Tilfinningin fyrir starfsemi magans getur ruglast. Árstíðabundið ofnæmi snýr aftur með látum. Þú þyngist þótt þú borðir ekki, þunglyndi gerir vart við sig eða hægðatregða. Þú ferð að sýna viðbrögð við mat sem þú hefur aldrei sýnt fyrr. Hvert einasta líffæri eða virkni líkamans er tengd meltingunni.
Eituráhrif eru oft fyrr sýnileg í maganum en annars staðar. Maginn eins og ég kalla hann hér, er ekki eitt líffæri. Þetta er kerfi sem sinnir mikilvægum, fjölbreyttum og næstum töfrum líkum athöfnum. Stutt lýsing á meginhlutum meltingarkerfisins hjálpar þér að skilja hvernig það getur verið rót vandans þótt um gerólíka sjúkdóma sé að ræða.
Byrjunin:
Hreint mataræði er sérhönnuð meðferð og byggir á fimm meginþáttum afeitrunar.
- Að draga úr meltingarálaginu. Litlir orkuskammtar sem tapast daglega í ofnæmisviðbrögðum, þótt þú finnir ekki sterklega fyrir þeim, taka sinn orkutoll og eiga þátt í þeirri „deyfð“ sem við upplifum flest daginn út og inn. Með því að borða minna af föstu fæði og forðast áreitisvalda beinirðu orkunni annað meðan afeitrun stendur yfir.
- Að endurvirkja „tólf tíma matarpásuna“. Þegar merki um virkjun afeitrunarhams er gefið, um það bil átta tímum eftir síðustu máltíð, þarf líkami hins dæmigerða nútímamanns um fjóra tíma til djúphreinsunar. Fæst okkar þekkja þetta í dag því við nöslum og drekkum fram eftir kvöldi.
- Að endurbyggja innra umhverfi. Sýrustig lækkar, þarmaflóra kemst í jafnvægi góðu bakteríunum í hag og þarmaveggurinn fær tækifæri til að lækna sig. Með því að skapa stöðugt umhverfi sem er í jafnvægi dregur úr þörf í fæðutegundir sem valda eitrun, og þannig er hægt að viðhalda hreinu ástandi.
- Stuðningur við lifrina. Framboð næringarefna sem tryggja að lifrin geti unnið verk sitt á 1. og 2. stigi á skilvirkan hátt og tryggja öryggi þitt.
-
Efling úthreinsunar. Þegar eiturefni eru losuð og hlutleyst er þeim útrýmt ásamt slímhúðinni sem þakti þau. Hreint mataræði notar bætiefni og tækni sem tryggir að þetta gerist á skilvirkan hátt.