Strákarnir í Vínardrengjakórnum hafa orð á sér fyrir að syngja eins og englar enda er kórinn einn frægasti drengjakór í heimi. Og núna ætla þessar englaraddir að syngja fyrir okkur hér á landi. Tónleikarnir fara fram í Hörpu, laugardaginn 27. og sunnudaginn 28. febrúar, klukkan 15:00 báða dagana.
Drengirnir hafa sungið í kapellu keisarans í Vín frá árinu 1296 og hafa þeir ásamt ásamt Vínarfílharmóníunni og Vínaróperukórnum, séð um tónlistarflutning í sunnudagsmessum í kapellu keisarans frá 1498. Tónlistarmenn á borð við Mozart og Bruckner hafa unnið við Vínarhirðina og voru t.d. Joseph Haydn, Michael Haydn og Franz Schubert sjálfir kórdrengir.
Meira en 300 tónleikar árlega
Tónleikaferðir eru hluti af menntun kórdrengjanna. Frá árinu 1926 hefur Vínardrengjakórinn skipulagt meira en 1000 tónleikaferðir til yfir 100 landa. Í dag er um 100 kórdrengjum á aldrinum 9 til 14 ára skipt í fjóra kóra. Þeir koma fram á yfir 300 tónleikum árlega, sem sóttir eru af meira en hálfri milljón áheyrenda um allan heim.
Efnisskrá tónleikanna er mjög fjölbreytt og flytja drengirnir klassísk verk eftir Mozart sem og poppstjörnuna Michael Jackson. Þetta er eitthvað sem við á Kokteil ætlum ekki að láta fram hjá okkur fara.
Drengirnir taka meðal annars þetta lag á tónleikunum.