„Hamingjan er ei öllum gefin fremur en skýra gull“ sungu Ðe lónlí blú bojs hér um árið. Eflaust eru einhverjir sammála því að hamingjan sé ekki allra.
En er það virkilega svo að við getum ekki öll öðlast hamingju? Er ekki það að vera hamingjusamur okkar val? Í texta sama lags segir einmitt líka „… en með viljastyrk verður veröldin full af hamingju“. Nákvæmlega! Það er vinna að vera hamingjusamur – því hamingjan kemur ekkert á silfurfati til okkar.
Ekki byggja hamingju þína á öðrum
Hamingjan er okkur mannfólkinu mikilvæg. En allt of oft gleymist að hamingjan er líka svo mikið undir okkur sjálfum komin. Þetta er val! Við erum sem sagt okkar eigin hamingjuvaldar. Að ætla að byggja sína eigin hamingju á öðrum gengur einfaldlega ekki upp. Aðrir geta vissulega látið okkur líða vel, og líka illa, en hamingjan veltur fyrst og fremst á okkur sjálfum. Þess vegna er ekkert vit í því að kenna öðrum um ef maður er ekki hamingjusamur.
Nýjasti síminn eða flottir skór færa þér ekki hamingjuna
Að kaupa nýjan rándýran flatskjá færir okkur ekki hamingju, ekki heldur nýjir skór eða nýjasta og flottasta tölvan, hvað þá nýjasti síminn eða feitur bankareikningur. Allt eru þetta dauðir hlutir sem er kannski gaman og gott að eiga en þeir færa okkur ekki hamingjuna.
Líkamleg stærð, minni rass, stærri brjóst og stæltir magavöðvar færa okkur ekki heldur hamingjuna. Þetta er svona eitt af því sem flestir læra með árunum. En ekki nóg með að við verðum full af visku með árunum heldur telja fræðimenn það fullsannað að hamingjan aukist með hærri aldri. Rannsókn frá árinu 2013 leiddi m.a. í ljós að eftir fertugt eykst hamingja fólks jafn og þétt.
Hamingjan kemur ekki innpökkuð
Þrátt fyrir að hamingjan skipti okkur miklu máli er ekki talið ráðlegt að eltast við hana. Stöðug leit að hamingjunni getur víst snúist upp í öndverðu sína. Hún kemur heldur ekki pökkuð inn í fallegar umbúðir því hana er alla að finna innra með okkur.
Jákvætt hugarfar er mikilvægt til að öðlast hamingju og einnig að vera þakklátur og vænta ekki of mikils af lífinu. Allt eru þetta þættir sem hægt er að tileinka sér. Og það besta er að allir geta lært þetta alveg eins og allt annað sem við lærum og tileinkum okkur á lífsleiðinni.
Gefum okkur tíma til að lykta af blómunum
Það er vinna að vera hamingjusamur og sumir þurfa að hafa aðeins meira fyrir því en aðrir þar sem erfðir skipa stóran þátt. En margir hafa líka tamið sér ákveðna hegðun og neikvæðni. Þá er ekkert annað að gera en að hugsa allt upp á nýtt og gera breytingar hjá sjálfum sér. Og er það ekki vel þess virði?
En til að öðlast hamingjuna er mikilvægt að vera vakandi fyrir eigin hegðun og hugsun – þetta krefst fullrar athygli okkar og mikillar þolinmæði. Miklu máli skiptir að hugur, hjarta og sál séu samtaka.
Lítum á jákvæðar hliðar lífsins og gefum okkur tíma til að lykta af blómunum – gefum okkur sjálfum tíma ♥
jona@kokteill.is