Það getur verið ferlega fúlt að eiga afmæli í desember. Það segja þeir sem þekkja. Þrátt fyrir að þetta sé einn dásamlegasti mánuður ársins og jólahátíðin sjálf skammt undan er ýmislegt sem getur skyggt á afmælisgleðina
Að eiga afmæli í desember er fúlt vegna þess að…
…. þrátt fyrir að fólk samgleðjist afmælisbarninu er það samt spenntara fyrir jólunum. Þannig er það og þannig mun það vera um ókomna tíð. Því fyrr sem afmælisbarnið sættir sig við það því betra.
…. afmælisbarnið fær ekki jafn stórar gjafir og þeir sem eiga afmæli aðra mánuði ársins. Ástæðan fyrir því er sú að fólk er yfirleitt blankast í desember og er búið að eyða öllum peningunum sínum í jólin. Og ekki má gleyma að jólabörn lenda oftar en ekki í því að jóla- og afmælisgjöfinni er smellt saman í eina …. svindl.
…. afmælisbarnið getur sjaldnast haldið afmælispartý! Það er af því að í desember er fólk svo upptekið í vinnu, prófum eða jólaundirbúningi. Ekki nóg með það því þegar líður svo að hátíðinni er fólk búið að bóka sig í jólaboð og áramótapartý. Þetta er frekar vonlaus staða.
… það spá fáir í afmælisdeginum sjálfum, og þrátt fyrir að afmælisbarnið dreymi um smá athygli í tilefni dagsins, þá vill það oft fara forgörðum.
Kokteill óskar öllum þeim sem eiga afmæli í desember innilega og af öllu hjarta til hamingju með afmælið.
Sigga Lund