Vissulega hefur tæknin og allt sem henni fylgir gert marga hluti einfaldari og auðveldað lífið að mörgu leyti. En henni fylgja líka vissir ókostir.
Neikvæðar hliðar tækninnar
Þar sem margir eru stöðugt með snallsímann í hönd og jafnvel spjaldtölvu í töskunni eru þeir tengdir allan daginn og missa ekki af neinu. Netið er notað í allt, við vinnuna, til að skipuleggja uppákomur, veislur, vinahitting, fundi, viðburði og áfram mætti telja.
Það er staðreynd að netið hefur haft letjandi áhrif á hreyfingu og virkni fólks. Og nú þykir einnig sannað að tæknin láti okkur eldast hraðar en við kærum okkur um. Þetta eru neikvæðu hliðar tækninnar og eitthvað sem fæstir hafa líklega áttað sig á.
Hér eru 4 atriði sem láta okkur eldast hraðar
Augun eldast
Líklega tekur þú ekki eftir því en þegar þú ert upptekinn við að senda tölvupóst eða skilaboð þá blikkar þú augunum ekki nógu oft. Læknar telja að fólk blikki augunum helmingi sjaldnar en það myndi annars gera, þ.e. þegar það er ekki fyrir framan tölvuskjá eða snjallsíma.
Að blikka ekki augunum nógu oft hefur þær afleiðingar að augun þorna, sjónin getur orðið þokukennd og óskýr, og þessu fylgir gjarnan höfuðverkur. Auk þess getur fínum línum og hrukkum fjölgað hratt þegar verið er að píra augun á snjallsímann.
En það má ýmislegt gera til að sporna við þessu. Stækkaðu letrið svo þú þurfir ekki að píra augun eins mikið. Reyndu meðvitað að blikka meira. Og taktu þér frí frá skjánum á 20 mínútna fresti, þótt það sé ekki nema í 30-60 sekúndur – og horfðu eitthvað annað.
Hefur neikvæð áhrif á svefninn
Endalausir smellir sem láta vita af tölvupóstum og skilaboðum geta haldið fyrir þér vöku. En alvarlegra er þó að rannsóknir hafa leitt í ljós að það að vera í tölvunni eða símanum rétt áður en farið er að sofa getur haft afar neikvæð áhrif á svefnvenjur.
Ljósið í tækjunum er talið draga úr melatónín magni líkamans sem gerir það að verkum að í fyrsta lagi er erfiðara að sofna og í öðru lagi þá verður svefninn ekki jafn góður. Og flestir vita að of lítill svefn getur haft alvarlegar afleiðingar á heilsuna og þeir sem ekki hvílast nóg eldast hraðar.
Reynið að hafa svefnherbergið „tækjafrítt“ svæði – og notið tækin ekki stuttu fyrir svefninn.
Getur haft neikvæð áhrif á minnið
Talið er að fólk sem er á besta aldri í dag muni ekki jafn mikið og eldra fólk. Einu sinni þurfti maður að muna öll símanúmer utan að. En ekki í dag. Maður má kallast heppinn að muna sitt eigið. Enda eru öll númer vistuð í símanum – svo einfalt og þægilegt.
Og einu sinni varð maður að nota kort og minnið til að rata en nú treystir maður á GPS tæki til að koma sér á réttan áfangastað. Aftur – svo einfalt.
Talið er að fólk sem leggur símanúmer á minnið og notar kennileiti til að rata hafi betra minni en þeir sem treysta á tæknina.
Tæknin veldur „tæknihálsi“
Nýjar rannsóknir sýna að það að horfa niður á snjallsímann sinn setur óeðlilega stöðu á hálsinn. Þessi staða er talin setja fimm- til sexfaldan þunga á hálsinn en það leiðir til rangrar líkamsstöðu og of mikils álags á hrygginn.
Þá telja húðsjúkdómafræðingar að þessi staða hafi neikvæð áhrif á húðina og hrukkumyndun. Tæknihálsinn leiðir víst til ótímabærra hrukkna og sigins kjálka og er þetta orðið algengt hjá ungum konum og hefur farið versnandi undanfarin 10 ár.
Þá gerir þessi afkáranlega líkamsstaða ekkert annað en að láta okkur líta út fyrir að vera eldri en við erum. Læknar telja mikilvægt að halda hálsinum beinum og lyfta símanum upp í augnhæð.