Flest stígum við til jarðar á þremur ólíkum sviðum og viljum vitanlega gera okkar besta í hvívetna. Við erum starfsmenn (eða nemendur), hluti af fjölskyldu og síðast en ekki síst EINSTAKLINGAR með ólíkar langanir, drauma og þrár.
Skyndilega finnst okkur lífið tilbreytingarlaust
Öll þekkjum við það eflaust að þegar það skapast ójafnvægi á einu sviði hefur það áhrif á það næsta og skyndilega finnst okkur lífið tilbreytingarsnautt og jafnvel leiðinlegt. Til þess að vera ástfanginn af lífinu er nauðsynlegt að leggja sig fram á öllum sviðunum þremur, njóta líðandi stundar, vera jákvæður og meðvitaður um að hvert einasta skref sem við tökum skiptir máli.
Ef við erum í ,,rétta“ starfinu þar sem ástríða okkar fær notið sín, finnst okkur við vitanlega ekki vera í vinnunni. En við erum þó hluti af tannhjóli atvinnulífsins og leggjum okkar af mörkum til samfélagsins sem gerir það að verkum að við förum heim í faðm fjölskyldunnar með jákvæða orku sem smitar út frá sér og aðrir blómstra.
Að fá að vera í friði án afskipta annarra
Ef við eigum heilbrigð og heiðarleg samskipti við fjölskyldumeðlimi, hreiðrum fallega um okkur, skapar það jákvæða og uppbyggjandi orku fyrir alla. Þriðja og síðasta sviðið, og hugsanlega það mikilvægasta, er að fá að vera EINSTAKLINGUR í friði og án afskipta annarra; stunda áhugamálin, heilsurækt, bóklestur, einveru, safna frímerkjum eða hvað það nú er. Þetta situr oftast á hakanum, með tilheyrandi óánægju og pirringi – sem skapar það ójafnvægi sem fer illa með okkur sjálf og fjölskylduna. Það segir sig sjálft að það er erfitt að mæta til vinnu með jákvæðu hugarfari og gleði í hjarta ef maður fær, eða nær, sjaldan að vera maður sjálfur – á þann hátt sem mann langar til.
Þess vegna er jafnvægið svo mikilvægt því það leiðir til þess að við verðum ástfangin af lífinu og fátt raskar ró okkar. Við verðum betur í stakk búin fyrir mótlæti og erfiðleika, brýnum sjaldan raustina og tökum ekki þátt í neikvæðri umræðu – af því við erum sátt við okkur sjálf.
Þorgrímur Þráinsson
Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu Þorgríms Verum ástfangin af lífinu.