Bjarni Arason er einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar enda með afar fallega rödd sem mörgum þykir svipa til raddar rokkkóngsins sjálfs Elvis Presley.
Bjarni hefur auk þess starfað um árabil sem útvarpsmaður og þrátt fyrir annríki nú fyrir jólin gaf hann sér tíma í stutt spjall við okkur á Kokteil um jólin og nýtt ár.
Við byrjuðum á því að forvitnast um hvað hefði verið á borðum á æskuheimili hans á jólum.
Það var þetta hefðbunda, hamborgarhryggur á aðfangadag og hangikjöt á jóladag.
Og er einhver jólahefð sem þú ólst upp við sem þú hefur haldið?
Ég hef haldið þessum matseðli sem ég er alinn upp við og finnst engin ástæða til að breyta því á nokkurn hátt.
Þannig að þið fjölskyldan snæðið hamborgarhrygg á aðfangadag?
Já, hamborgarhryggur skal það vera.
En hver eldar jólamatinn á heimilinu?
Við hjónin förum saman í það verkefni en Silja konan mín er yfirkokkur þar. Ég er svona meira í því að aðstoða. Hún er snillingur í jólamatnum og gerir verðlaunasósu og frábærar brúnaðar kartöflur með sem er ómissandi.
Hvaða matur eða góðgæti finnst þér vera alveg ómissandi á jólum?
Marengs með fjalli af ávöxtum er snilld. Annars finnst mér fínt að fá bara Nóa konfekt – besta konfekt í heimi með góðu kaffi.
Er búið að skreyta jólatréð á heimilinu?
Já, við skreyttum það 14. desember sem er ágætt því allir eru svo önnum kafnir fyrir jólin. En ég ólst þó upp við að skreyta það á þorláksmessu fyrir háttinn.
Ertu einn af þeim sem geymir að kaupa eina gjöf þar til á Þorláksmessu?
Nei ég reyni fyrir alla muni að vera búinn að þessu þá. Hef samt lent í því að vera tíu mínútur í ellefu, það er rétt fyrir lokun gaurinn – og það er ekki alveg málið!
Hvað langar söngvarann mest í í jólagjöf?
Vínyl plötuspilari væri snilldin ein.
Hvaða væntingar hefurðu svo fyrir árið 2016?
Að allt gangi fjölskyldu minni í haginn sem og landi og þjóð.
Bjarni gaf okkur að lokum uppskrift að sætkrydduðum gulrótum sem stelpurnar hans elska og við hlökkum til að prófa.
Indversk ættaðar sætkryddaðar gulrætur
ÞAÐ SEM ÞARF
1 dl mjólk
250 gr gulrætur
75 gr smjör
1 msk Maples síróp
125 gr sykur
50 gr rúsínur
1 tsk kardimommufræ (belgir)
AÐFERÐ
Setjið mjólkina í pott.
Skafið gulræturnar og rífið þær í fínu rifjárni og setjið út í pottinn.
Sjóðið saman mjólk og gulrætur þar til mjólkin hefur gufað upp að mestu og gulræturnar orðnar að mauki.
Bætið smjöri, sírópi, sykri og rúsínum út í og sjóðið við vægan hita þar til sykurinn hefur bráðnað.
Sjóðið áfram í 15-20 mínútur. Hrærið af og til í blöndunni.
Hellið blöndunni að lokum í smurt form og látið stífna. Kremjið kardimommufræin í mortéli og stráið yfir.