Samkvæmt rannsóknum er fólk sífellt að verða háðara netsamskiptum og samfélagsmiðlum. En talið er að 95% prósent kvenna finni sér tíma á hverjum degi til að renna í gegnum Facebook, Instagram eða Twitter.
Misjafnt er hvað konur eru að skoða á þessum miðlum. En ætli það sé eitthvað eitt sem þær flestar eru að leita eftir á samfélagsmiðlunum?
Jú, það eru víst hrósin!
Jákvæðar og neikvæðar hliðar samfélagsmiðlanna
Oftar en ekki er talað um hinar neikvæðu hliðar samfélagsmiðlanna og að Facebook eigi t.d. þátt í því að brjóta niður sjálfstraust fólks og gera það óánægt með líf sitt. En eins og málshátturinn segir; „fátt er svo með öllu illt að ei boði gott“ – og því hljóta að vera tvær hliðar á þessu máli.
Sú er einmitt raunin því margir telja að samfélagsmiðlar geti aukið sjálfstraustið til mikilla muna. Í könnun sem nýlega var gerð í Bandaríkjunum, með 1000 kvenna úrtaki á aldrinum 20 og 50 ára, sögðu heil 89% prósent að það að fá „like“ á þessum miðlum jafngilti hrósi.
Þörf fyrir að hrósa öðrum
Og 82% þeirra sögðu að „like“ og hrós ykju á sjálfstraust sitt. En ekki nóg með það því þetta hefur víst keðjuverkandi áhrif líka. Meirihluti þessara kvenna sagðist nefnilega finna hjá sér þörf fyrir að hrósa öðrum og setja komment eða „like“ við færslur annarra eftir að hafa sjálfar fengið jákvæð viðbrögð.
Þetta er nokkuð athyglisvert í ljósi þess að umræðan um hinar neikvæðu hliðar hefur verið meira áberandi – og að öllum líkindum er þetta eitthvað sem verður betur skoðað og rannsakað í framtíðinni.