Þeir sem eru kaldhæðnir gera sér stundum lífið auðveldara, sérstaklega þegar erfiðleikar banka upp á, en þeir geta notað kaldhæðnina til að fleyta sér yfir erfiðasta hjallann.
En svo getur hún líka komið þeim í koll þegar aðrir skilja ekki kaldhæðnina.
Hefur kaldhæðni eitthvað með greind að gera?
Getur verið að kaldhæðið fólk sé greindara en gengur og gerist?
Og þá veltir maður því fyrir sér hvað kaldhæðni hafi svo sem með greind að gera?
Ef við skoðum þetta aðeins þá er hreinasta form kaldhæðni það að halda einu fram en gefa raunverulega eitthvað annað í skyn.
Að nota og þekkja kaldhæðni krefst þess ekki aðeins að þú grípir og notir það sem er að gerast beint fyrir framan þig heldur einnig það sem þú skynjar að vanti inn í atburðarásina. Segja má að kaldhæðni sé hálfgerð hugarleikfimi því hún krefst þess að hugsa út fyrir og lengra en bókstaflegu merkingu orðanna. Að ákveðnu leyti krefst kaldhæðni þess að viðkomandi sé ávallt skrefi á undan í hugsun.
Aukin heilavirkni
Rannsóknir hafa sýnt fram á að ákveðin heilavirkni aukist við kaldhæðni. Sérfræðingar telja að til langs tíma litið sé það gott fyrir heilann og því fari þessi hugaleikfimi síður en svo til spillis. Líkja má þessu við stanslausar magaæfingar sem enda á því að skila stinnum magavöðvum. Kaldhæðni í formi hugarleikfimi virkar alveg eins. Því til lengri tíma litið þá skili kaldhæðnin vel þjálfuðum og skarpari heila.
En kaldhæðni er þó ekki eingöngu tengd greind því samkvæmt rannsóknum er kaldhæðið fólk líka talið árásargjarnara (eða grimmara og ákveðnara) en aðrir. Helsta ástæðan að baki þeim niðurstöðum er sú að árásargjarnt fólk er fljótara að skilja og ná hinni tvíþættu kaldhæðni.
Vandmeðfarið
Kaldhæðnin getur verið vandmeðfarin og þótt þeim kaldhæðnu finnist þeir sniðugir og fyndnir þá getur það endað svo að enginn hlæji nema þeir einir.
Þess vegna borgar sig að fara varlega með hana því það er sko langur vegur frá að allt fólk sé kaldhæðið. Og í hvert sinn sem þeir kaldhæðnu ákveða að láta eitthvað flakka taka þeira áhættuna á því að það skilji þá ekki allir… og kannski fáir. En þannig er það bara og kaldhæðið fólk verður að lifa með því!