Það hefur lengi tíðkast í stefnumótamenningu okkar Íslendinga að fólk hittist yfir kaffibolla á notalegu kaffihúsi á fyrsta stefnumóti. Þetta hefur bara reynst nokkuð vel, enda hentugt og ekki svo kostnaðarsamt. En þó svo að kaffibolla stefnumótin séu enn í góðu gildi hefur landslagið breyst með auknum gleðistundum (happy hour) á mörgum kaffi- og veitingahúsum landsins undanfarin ár. Nú hittist fólk á stefnumótum á þeim stöðum þar sem „Happy hour“ er í gangi og skálar yfir fyrstu kynnunum.
Ýmsir kostir
Ef þú hefur verið að spjalla við einhvern/einhverja sem þú ert spennt/ur fyrir þá er alveg málið að stinga upp á því að hittast á skemmtilegum stað á „happy hour“ eftir vinnu. Það eru margir kostir sem fylgja því að fá sér eitt glas, sérstaklega ef þú hefur aldrei hitt manneskjuna áður.
Hér eru nokkrir kostir þess að fara á „happy hour“ stefnumót
- Það er ekki kostnaðarsamt. „Happy hour“ tilboð kosta oft jafnmikið og einn kaffibolli.
- Það er oft stressandi að hitta manneskju í fyrsta sinn og það getur komið í veg fyrir að hinn raunverulegi karakter skíni í gegn. Að fá sér eitt glas getur hjálpað báðum aðilum að slaka aðeins á og líða vel til að sýna sitt rétta andlit.
- Þú getur séð svart á hvítu hvernig sá sem þú ert að hitta drekkur og hversu mikið. Ofdrykkja gerir samböndum aldrei gott. Það er ekki gott að tengjast einstaklingi og komast að því síðar að viðkomandi kann illa að höndla áfengi.
- Ef að viðkomandi vill ekki fá sér drykk og pantar sér kaffi, gos, eða eitthvað annað, þá er það aldeilis eitthvað til að hefja samræður. Kannski er viðkomandi að fara á fund eftir stefnumótið eða hann smakkar ekki vín … eða eitthvað allt annað. Þetta gæti alveg skapað áhugaverðar samræður.
- Tekur ekki langan tíma. „Happy hour“ á veitingastað varir oftast í 1-2 klukkutíma. Það hentar fullkomlega á fyrsta stefnumótið. Og ef þér líkar ekki við viðkomandi hefurðu afsökun fyrir því að þurfa ekki að sitja of lengi.
Þetta er enginn spurning, kostirnir eru margir. En ef það eru einhverjir ókostir þá væri það allra helst að þú getur ekki keyrt heim eftir að hafa fengið þér í glas. Þú þarft því að vera búin/n að gera einhverjar ráðstafanir. En hafðu í huga að svona stefnumót ætti að innihalda einn til tvo drykki í mesta lagi. Það er aldrei aðlaðandi að verða drukkin/n, hvað þá við fyrstu kynni.
Skál fyrir ástinni 🙂
Sigga Lund