Þetta var nákvæmlega það sem okkur vantaði – að glæsileg Hollywood-stjarna lýsti því yfir opinberlega að það sé bara fínt að vera á breytingaskeiðinu. Enda er þetta tímabil sem við konur ættum að líta jákvæðum augum. Já, við tökum ofan hattinn fyrir Angelinu.
Gerði konur út um allan heim kjaftstopp
En leikkonan lýsti því yfir í viðtali við Daily Telegraph að hún elskaði að vera á breytingaskeiðinu og gerði þar með konur út um allan heim alveg kjaftstopp. Hún bætti því líka við að hún væri lánsöm því hennar upplifun af breytingaskeiðinu hefði alls ekki verið svo slæm.
Þá segist Angelina upplifa sig eldri og ráðsettari – og vera hamingjusöm með það að vera loksins orðin „fullorðin“. Og bætir við að hún hafi ekki nokkurn áhuga á því að verða aftur ung. Mikið sem við erum henni sammála!
Um að gera að fagna þessum tímamótum
Breytingaskeiðið eru einmitt ákveðin tímamót þar sem margar konur taka líf sitt til endurskoðunar. Margar okkar líta á þetta tímabil sem boðbera góðra breytinga. Það er svo miklu auðveldara að hugsa þetta á jákvæðum nótum og líta breytingaskeiðið björtum augum. Því er um að gera að fagna þessum tímamótum og sættast við sjálfa sig. Og það má svo sannarlega taka viðhorf Angelinu sér til fyrirmyndar. Breytingaskeiðið rokkar … alla vega ef maður vill það!
Jóna Ósk Pétursdóttir