Ég er alveg óskaplega veik fyrir hæfileikaþáttum, þar sem leitað er að hæfileikaríkasta einstaklingnum, og get horft endalaust á slíka þætti. Þættir þar sem fólk kemur og leggur allt í sölurnar. Ég dáist að þessum einstaklingum sem láta slag standa og fara upp á svið fyrir framan áhorfendur og dómarateymi og læta dæma sig.
Allur tilfinningaskalinn
Þegar ég sit og horfi á þessa þætti fer ég stundum alveg í gegnum allan tilfinningaskalann. Maður getur orðið spenntur, leiður, glaður, forvitinn, reiður, áhugasamur – og fundist eitthvað alveg ferlega fyndið eða rosalega sorglegt. Allt fer þetta líka eftir því hvernig þættirnir eru upp byggðir. Sumum framleiðendum tekst einstaklega vel upp og fanga athyglina frá fyrstu mínútu. Þeir kunna að setja efnið saman á réttan hátt svo úr verði frábært sjónvarpsefni.
En það sem ég heillast samt alltaf mest af við slíka þætti er allt þetta fólk sem er tilbúið að koma og taka þátt. Einstaklingar sem hafa kannski bara æft sig í stofunni heima hjá sér eða í sturtunni. Þarna mæta þeir berskjaldaðir og opna sig fyrir okkur áhorfendum. Þeir raunverulega leggja framtíð sína í hendurnar á dómurunum og okkur hinum sem á horfum.
Kjánalegt bros og tár á hvarmi
Það er líka alveg ótrúlegt hvað sumir eru hæfileikaríkir og ef ekki væri fyrir svona þætti þá bara vissum við ekkert af öllu þessu hæfileikafólki. Svo eru það þeir sem mæta á sviðið og einhverra hluta vegna þá vonar maður svo innilega að viðkomandi sé góður. Þetta gerist ósjaldan og þá sit ég með öndina í hálsinum og bíð eftir að verða snortin. Oft gerist það líka að ég verð snortin, en þá færist kjánalegt bros yfir andlitið og ekki er laust við að eitt og eitt tár læðist fram í augun. En það eru gleðitár af því ég er svo glöð og ánægð hversu vel þessum einstaklingi gekk og hversu hæfileikaríkur hann er. Já það þarf ekki alltaf mikið til að gera mann glaðan – og meyran.
Eitt af því besta samt við marga af þessum þáttum er að þarna kemur fólk á öllum aldri og stundum upplifir maður ævintýrin gerast í sófanum heima hjá sér. Sérstaklega þegar fólk sem komið er á miðjan aldur, og jafnvel vel það, mætir og slær í gegn. Oft er þetta fólk sem hefur látið sig dreyma um þetta í mörg ár eða er búið að reyna og reyna lengi. Þannig geta ævintýrin gerst – ef maður tekur sénsinn og nýtir tækifærin sem maður fær í þessu lífi. Og það er sko aldrei of seint að lenda í ævintýrum og láta draumana rætast!
Jóna Ósk Pétursdóttir