Þetta er ekki nógu gott hjá þér…
Þú ert léleg/ur…
Þú ert ekki nógu klár…
Þú ert ekki að æfa nóg…
Þú ert ekki nógu góð/ur…
Þú ert ekki nóg…
Þú ert ekki…
Hver vill láta tala svona til sín?
Þegar ég les þessar setningar þá hugsa ég „úff ekki myndi ég vilja láta tala svona við mig“.
Það talar enginn svona við mig, en skrítið því ég kannast samt eitthvað svo svakalega við þessar setningar?
Já bíddu, ég tala sjálf svona við mig!
Ef ég væri spurð hverju myndir þú vilja breyta í fari þínu? Þá væri svarið; „Koma fram við sjálfa mig eins og ég væri 5 ára barnið mitt og hætta að gera þá kröfu að ég þurfi að vera og gera allt á „fullkomin hátt“ annars sé ég ekki að standa mig!“
Leyfum okkur að gera mistök
Ef okkur líður eins og við séum af einhverjum ástæðum ekki að ná að gera okkar besta og við dæmum okkur fyrir það, þá er alveg öruggt að okkur mun líða ennþá verr.
Dæmi 1: Ég geri mistök í vinnunni og ég dæmi mig hart fyrir það. Þetta gæti verið týpískt samtal sem færi fram. Margrét hvað varstu að pæla? Hvernig gastu gert þetta, það er nú meira hvað þú getur verið vitlaus, já skammastu þín bara!
Dæmi 2: Ég geri mistök í vinnunni og ég sýni mér skilning og mildi: Margrét, ahh… þetta var nú leiðinlegt, það gerðist nú ekkert alvarlegt og það geta allir gert mistök. Ég læri á þessu og geri þetta öðruvísi næst.
Hversu oft tekur þú leið eitt og hversu oft tekur þú leið tvö?
Ef við hefðum verið að tala við barnið okkar, hvor leiðin ætli sé vænlegri til árangurs? Við lærum þegar við gerum mistök.
Ef við leyfum okkur ekki að gera „mistök“ þá lifum við í stöðugum ótta. Ótta við að einhver uppgötvi að við séum ekki nógu… eitthvað. Viðurkennum „mistök“, virðum þau fyrir okkur eins og vísindamenn án þess að dæma og lærum af þeim. Því fleiri mistök sem við gerum þeim mun meira og hraðar lærum við.
Enginn sem dæmir okkur eins hart og við sjálf
Þegar við drögum okkur niður þá er erfiðara að hífa sig upp. Afhverju ættum við að draga okkur viljandi niður. Eigum við það skilið?
Það er enginn sem dæmir okkur eins hart og við sjálf.
Eitt er víst og það er að við erum alltaf að gera okkar besta!
Lífið er fullt af ævintýrum, tökum þátt í því á fordómalausan hátt gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Ef okkur tekst að vera mild gagnvart okkur sjálfum þá er miklu auðveldara fyrir okkur að sýna öðrum mildi.
Líf okkar er fullt af venjum. Við getum vanið okkur á nýjar hugsanir, hvernig væri að við skiptum setningunum sem komu fram hér í byrjun út fyrir þessar sem koma hér á eftir?
Ég er nóg eins og ég er núna…
Ég er frábær manneskja…
Ég á allt það besta skilið…
Ég þarf ekki að sanna mig fyrir neinum nema sjálfri/um mér…
Ég geri alltaf mitt besta…
Margrét Leifsdóttir – heilsumarkþjálfi og arkitekt
Pistillinn birtist fyrst á dansogjoga.is