Jeanne Louise Calment er sá einstaklingur í heiminum sem hæstum aldri hefur náð. Hún fæddist árið 1875 í borginni Arles í Suður-Frakklandi. Og þar bjó hún síðan allt þar til hún lést árið 1997, þá 122 ára og 164 daga.
Geri aðrir betur!
Reykti, drakk og gúffaði í sig súkkulaði
En það er ekki aðeins aldur Calment sem vekur athygli okkar hér á Kokteil heldur einnig lifnaðarhættir hennar og hverju hún þakkaði langlífið. Hún stundaði ekki hefðbundna líkamsrækt og var síður en svo fanatísk varðandi heilsu sína. Það er því ekkert leyndarmál eða trix á bak við aldur Calment því það var ekkert eitt sérstakt sem hún gerði til að viðhalda góðri heilsu.
Eða hvað?
Calment gerði nefnilega nákvæmlega það sem henni sýndist og þegar hún var 85 ára tók hún t.d. upp á því að stunda skylmingar. Þá hjólaði hún um á hjóli alveg þar til hún varð 100 ára gömul.
Calment var reykingakona og byrjaði að reykja 21 árs að aldri en hætti víst reykingum þegar hún var 117 ára. Sagan segir hins vegar að hún hafi reykt 2 sígarettur á dag eftir það allt þar til hún lést. Þá drakk hún púrtvín og borðaði kíló af súkkulaði á viku alveg þar til hún varð 119 ára gömul. Alla sína ævi neytti hún líka fæðu sem var rík af ólífuolíu og ekki nóg með það því hún bar olíuna einnig á húðina. Þetta þrennt, þ.e. púrtvínið, súkkulaðið og ólífuolíuna taldi hún eiga þátt í langlífi sínu.
En hverju þakkaði hún samt langlífið?
Hverju þakkaði hún svo sjálf helst langlífið?
Jú því að brosa, hlæja og vera kát og létt – og ekki hafa of miklar áhyggjur af lífinu. Enda er haft eftir Calment „ef það er ekkert sem þú getur gert í því vertu þá ekki að hafa áhyggjur af því“.
Eru skilaboðin þá ekki þau að það sé alltaf best að reyna að vera í góðu skapi og taka lífið ekki allt of alvarlega?