Árið 2013 flutti ég til LA þar sem stjörnurnar búa og kvikmyndirnar verða til. Ég ákvað að um leið og ég myndi stíga fæti á fyrirheitna landið færi heilsuefling af stað. Af hverju þarna og í árs námsleyfi þegar var komin tími til að njóta og neyta? Jú, ég var orðin skíthrædd, komin með kæfisvefn og verk í mjaðmirnar sem gerði það að verkum að ég kjagaði eins og gömul gæs í kartöflugarði.
Ég vissi að ef ég dveldi lengur í þriggja stafa tölu yrði ég brátt á kistubotni. Það eru nefnilega til týpur sem fara ekki af stað fyrr en þær eru orðnar hræddar, ég er ein af þeim. Sorrý!
Reiknaði með að þetta reddaðist
Eitt af því sem ég elskaði var að skoða svona „before and after“ myndir og lesa reynslusögur. Það var alveg dásamlegt að skoða fólk sem var búið að missa tugi kílóa spóka sig í dressum og baðfötum. Þetta fólk hafði lagt mikið á sig og það gaf manni styrk til að gefast ekki upp. Það er svo merkilegt að þótt maður sé feitur er ekki sjálfgefið að maður sé ofæta.
Mitt stærsta vandamál var að ég hugsaði ekki nóg um mat og lifði í of miklum hraða. Fór bara út í daginn og reiknaði með að þetta reddaðist, eða tók til nesti og gleymdi því á kommóðunni í forstofunni heima. Ofætan borðar nestið á leiðinni út í bíl. Jú, ég lenti stundum í afbragðs erfisdrykkjum með góðri næringu en oftast var það eitthvað skyndi og drasl sem ég setti upp í mig yfir daginn, ef ég borðaði yfir höfuð.
Það er gott að elska, líka sjálfan sig
Ég hef líka tekið eftir því að margar konur sem ég þekki sem starfa undir miklu álagi eru of stórar. Margar konur sem ég þekki sem starfa við það að hlúa að öðrum eru arfa slakar í því að hlúa að sjálfum sér. Þetta er umhugsunarvert. Konur sem breiða sig yfir stóra hópa fólks eru oft breiðar. Ég er ein af þeim, ein svona breið að breiða sig yfir og allt um kring. Þegar ég sé stórar konur þá langar mig stundum að faðma þær og segja þeim að þær megi líka stjana við sig sjálfar, það sé allt í lagi. Kæru breiðu systur, það er gott að elska, líka sjálfan sig.
Ekkert auðvelt fyrir svona 50 ára fitubollu
En það var þetta með myndirnar, þær hvetja. Þess vegna var ég stundum að biðja karlinn minn að taka af mér myndir, svo ég gæti borið þær saman og þannig talið í mig kjark og passað betur upp á matarræðið. Þess vegna langar mig að gleðja þig kæri lesandi sem ert kannski breið eða breiður eins og ég. Kannski geta myndirnar mínar hvatt þig áfram af því að það er ekkert auðvelt fyrir svona 50 ára fitubollu eins og mig að leggja af en það er að ganga alveg sæmilega. Þegar ég var ung og hafði misst tökin eftir barnsburð þá hafði ég mynd af mér þar sem ég var hvað feitust í seðlaveskinu og tók hana upp til að minna mig á að mér hefði tekist að verða svona feit, með mjög lítilli fyrirhöfn.
Lifið heil.
Jóna Hrönn
Hér má lesa fleiri pistla Jónu Hrannar.