Það er hreint ótrúlegt hvað maður lærir mikið um landið sitt þegar maður les um það eða sér umfjöllun í erlendum miðlum (lesist með kaldhæðni með grínívafi).
Íslendingar drekka kúmenkaffi með brennivíni
Ég var nefnilega að komast að því að við Íslendingar drekkum gjarnan kúmenkaffi með brennivíni út í eftir mat og að hér á Fróni sé sú hjátrú viðloðandi að ef við setjum sykurinn út í kaffið (fyrir þá sem nota sykur og mjólk) á undan mjólkinni/rjómanum mun viðkomandi ekki giftast næstu sjö árin.
Athyglisvert! Ég hef bara aldrei heyrt um þetta kúmenkaffi né um þessa hjátrú með sykurinn og mjólkina, samt hef ég búið á þessu landi í 45 ár. Er ég kannski bara ein um það?
Flott myndband
En hvað sem því líður þá rakst ég á þetta flotta myndband frá Tastemade um daginn þar sem útlendingar fá kennslustund í því að búa til ekta íslenskt kúmenkaffi. Myndbandið er okkur Frónverjum alveg til sóma hvort sem það er allt satt og rétt sem kemur fram í því eða ekki. Og það er skemmtilegt á að horfa, það er meira að segja íslensk tónlist sem hljómar undir kennslunni. Haukur Morthens ef mér skjátlast ekki.
Lærðu réttu handtökin
Okkur á Kokteil fannst ekki annað hægt en að deila myndbandinu með ykkur þó það væri ekki nema bara fyrir þá Íslendinga sem hafa aldrei heyrt um þetta margnefnda kúmenkaffi. Það er ekki seinna en vænna fyrir þá einstaklinga að læra réttu handtökin og vera með í partýinu. En í öllum bænum ef þú ert einhleyp/ur passaðu bara uppá að setja sykurinn í bollann á undan rjómanum. „I say no more.“
Hér er myndbandið 😀
Sigga Lund